11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Jakob Möller:

Ég skal ekki heldur eyða löngum tíma í umr. um þetta. Það er gott dæmi upp á samanburð, sem hæstv. ráðh. er að gera á ábyrgðum ríkissjóðs, að taka hafnargerðir og lendingarbætur til samanburðar við fyrirtæki eins og hitaveituna. Menn vita, að hitaveitan skilar öllu, sem í hana er lagt, en um hafnargerðir og lendingarbætur vita menn, að þær skila því ekki. Þess vegna er það líka, að þingið þarf að leggja styrki til þeirra. þar sem þau fyrirtæki geta ekki borgað sig, og þá er líka eðlilegt, að þeir, sem eiga að búa við þau, leggi fram fé til þeirra, ekki að láni. heldur sem framlag, eins og kallað er.

Hæstv. atvmrh. talaði um fórnfýsi, en skáldskapur og tilfinningamál eiga svo sáralítið skylt við fjármál. Það er líka vitað að þeir, sem peninga eiga, eiga þá fyrir þá sök, að þeim er sýnt um að ávaxta sitt fé. Af hverju er hægt að fá lán erlendis? Heldur hæstv. atvmrh., að þeir láni þar fé af fórnfýsi? Nei, það er af því, að þeir geta ekki fengið hærri vexti. Þessir menn, sem gert er ráð fyrir, að eigi peninga hér, verða því að lána fé fyrir minni vexti en þeir eiga kost á að fá annarsstaðar, jafnvel helmingi minni vexti. Það er vitað, að hér geta menn ávaxtað fé sitt fyrir 7–8%, án þess að um nokkurt okur sé að ræða, t. d. í sambandi við bezt tryggðu verðbréfin, sem hér eru á markaðnum. Það er ákaflega ólíklegt, að menn séu almennt svo fórnfúsir, að þeir vilji, í stað þess að kaupa verðbréf, sem gefa a. m. k. 70% í vexti, láta heldur fé sitt í lán, sem gefur 4% í vexti.

Ég vil trúa öllu góðu um þetta mál. En að byggja möguleika þess, að koma þessu fyrirtæki upp algerlega eða að nokkru leyti á fórnfýsi náungans, tel ég ekki varlegt. Ég er mjög hræddur um, ef ætti að byggja á því, að þá kynni að verða töf á framkvæmdum, en það er einmitt það, sem verið er að reyna að forðast.