11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hélt hálfvegis, að sjálfstæðismenn hefðu einhvern áhuga fyrir því, að þetta mál fengi framgang, og myndu því ekki leika sér að því að tefja það með annari eins ræðu og þessi hv. þm. hefir nú haldið. En ef hv. þm. óskar þess, þá stendur ekki á mér að taka upp almennar umræður.

Ég vil benda hv. þm. á, að rétt eftir að borgarstjórinn í Rvík kom heim frá því að reyna að útvega lán til hitaveitunnar, þá sagði blað hv. þm., að svo miklu leyti, sem það getur kallazt hans blað, að þótt ekkert erlent lán fengist til hitaveitunnar, þá skyldi hún verða byggð samt með því að taka lán hér innanbæjar. Það er ekki jafnhátt risið á hv. þm. nú, þegar verið er að biðja okkur að vera með því, að það þurfi ekki einu sinni að taka 10% af þessu láni innanlands. Það situr illa á þessum hv. þm. að vera hér í sambandi við þetta mál með slík ummæli sem hann hafði áðan. eftir þeirri sögu, sem þetta mál hefir, og eftir því, sem gerzt hefir í þessu máli síðustu vikurnar. Svo er líka það atriði málsins, sem lítið hefir verið rætt um, en mætti ræða meira um, ef hv. þm. langar til þess. En við höfum sneitt hjá því af því, að okkur hefir ekki fundizt ástæða til þess, en það er það atriði. hvers konar framkoma það er, þegar blað þessa hv. þm., Morgunblaðið, áleit, að það væri hægt að fá lán erlendis án ríkisábyrgðar, þá var þar stór fyrirsögn um það, að Rvík gæti fengið lán, en þeim þótti það ekki nóg, að taka það fram, heldur þurfti líka, til þess að fylgja eftir þessu ágæta tækifæri, að taka það fram, að ríkið gæti ekki fengið lán og lánstraust þess væri þannig, að fjmrh. hefði orðið að skrifa undir skuldbindingu um það, að taka ekki meiri lán og veita ekki meiri ábyrgðir. En ég ætla, að það hafi verið 2 mánuðum síðar. að þm. þessa sama flokks flutti hér frv. á Alþ. og óskaði eftir því, að af hálfu þessa gjaldþrota ríkis og þess sama fjmrh., sem átti að hafa gefið þessa yfirlýsingu, væri skrifað upp á lán fyrir Rvíkurbæ, sem átti að geta fengið lán. án þess að ríkið kæmi þar nærri og þó að ríkið gæti ekki fengið lán. Manni virtist það vera komið svo langt þá, að það væri eðlilegast, eftir skrifum þessa blaðs, að ríkið fengi samþykki bæjarstjórnar Rvíkur fyrir því, að Rvíkurbær skrifaði upp á ríkislán, ef ætti að taka það. — Ég mun ekki fara lengra út í að ræða þetta og hefði ekki gert það, ef þessi hv. þm. hefði ekki gefið tilefni til þess.

En viðvíkjandi því, að ríkið skuldi meira í Landsbankanum en það megi samkvæmt l., þá er það að vísu rétt, að það hefir farið nokkuð yfir það, sem heimilt er, en það hefir gert það hjá öllum fjmrh., sem verið hafa, síðan Landsbankalögin voru sett. Ég verð að segja, að á meðan Rvíkurbær skuldar í Landsbankanum yfirdrátt eða vexti, svo að skiptir mörgum mill. kr., þá mun ég ekki bera kinnroða fyrir það, þótt ríkið skuldi þar 2–3 millj. kr. um áramót, hvort sem því er haldið fram, að það sé samkvæmt landslögum eða ekki. Það hefir aldrei staðið á hinu íslenzka ríki að standa í skilum við bankana, heldur hefir ríkið þvert á móti hlaupið undir bagga með bönkunum, Landsbankanum og öðrum, fremur en að bankarnir hafi tapað á ríkinu.