11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sigurður Kristjánsson:

Ég hefi setið hjá við þær umr., sem hingað til hafa farið fram um þetta mál, enda þótt ég sé þm. fyrir það kjördæmi, sem þetta mál snertir mest. Ég álít rétt að hrinda þeim ummælum, sem hér hafa fallið um undirbúning málsins, og fara þó svo skammt út í málið sem unnt er, svo að ekki verði til þess að letja það. En það getur enginn maður. sem til þekkir, mótmælt því, að það, sem hér hefir verið borið fram af hendi stjórnarflokkanna, er ekkert nema málþóf og ofsalegar árásir á Sjálfstfl. Þær umr. eru alveg utan við málefnið sjálft. Þessir hv. þm. hafa vísvitandi farið langt út í alveg óskylda hluti. Ég sé ekki, að Reykjavík þurfi að standa auðmjúk og biðjandi frammi fyrir stjórnarflokkunum. Hún hefir séð vel fyrir sínum hlut fjárhagslega. Enginn vafi er á því, hvað sem róginum um Reykjavík líður, að ríkið hefði engan sóma af því, ef Reykjavíkurbær væri tekinn til jafnaðar við það. Sjálfur fjmrh. veit ekki til, að nokkur lánveiting hafi átt sér stað, sem ríkið hafi ekki staðið í skilum með. En hefir nokkur maður efazt um skil af hendi Reykjavíkurbæjar? Það er því miður betri vitnisburður en hægt er að segja um ríkið. Ég veit ekki annað en að Reykjavíkurbær hafi ætíð staðið í skilum með hvern þann hlut, sem hann hefir skuldbundið sig til, og er það meira en unnt er að segja um ríkið, og líka meira en hægt er segja um flest önnur bæjarfélög á Íslandi.

Það hefir verið talað mikið um, að undirbúningur hitaveitunnar væri ófullkominn. Hv. 1. þm. Rang. viðhafði þau orð, að undirbúningur hitaveitunnar væri herfilegur, og hv. 2. þm. Skagf. lét svipuð ummæli falla. Það er nú vitanlegt, að þessir menn hafa enga hugmynd um, hvað þeir eru að segja. Þeir bara slá því föstu, að undirbúningurinn sé herfilegur. Hitt er vitanlegt, að undirbúningur málsins hefir verið framkv. með þeim mesta öruggleik sem unnt var. Verkfræðingar hafa unnið að rannsóknunum í mörg ár, og það hefir ekki borið á öðru en að undirbúningur málsins fengi hið mesta hrós hjá erlendum verkfræðingum. En svo kom hv. 1. þm. Rang. og hélt ræðu hér í d., aðallega til þess að fræða menn um það. að undirbúningur hitaveitunnar væri ekkert nema nafnið tómt, og hv. 2. þm. Skagf. sagði, að undirbúningnr þessa máls væri herfilegur. En þetta eru ekkert nema slagorð og fjarstæða. Þessir menn eru með öðrum orðum að skýra frá því, hve hlýjan hug þeir bera til málsins. Hugur þeirra er fullur af óvild til málsins og til Sjálfstfl. sérstaklega. Þeir nota hvert tækifæri, sem gefst, til þess að atyrða hann fyrir hræsni í þessu máli framar öðrum flokkum. En þessir menn þora ekki að láta opinberlega í ljós óvild sína til málsins. Þeir eru of hræddir við almenningsálítið til þess, því að allur almenningur veit, að hér er ekki aðeins um hagsmunamál Reykjavíkur að ræða, heldur einnig alls landsins. En óvild þeirra til málsins er ekkert annað en óvild þeirra til sjálfstæðismanna, af því að þeir eru höfundar þess. Það er nákvæmlega sama velvildin til þess máls, sem kemur fram hjá núverandi stjórnarflokkum, eins og var til rafveitunnar á sínum tíma, sem Framsfl. tókst að tefja um tíma með því að synja Reykjavíkurbæ um ríkisábyrgð, og hann lagði svo mikla rækt við það áform, að hann kom af stað þingrofi til þess að afstýra því, að Reykjavík fengi rafveitu við Sogið, sem þm. Framsfl. keppast nú við að telja hið bezta fyrirtæki, og eigna sér hlutdeild í að hafa stutt það. Þessir menn viðhafa þá aðferð í hitaveitumálinu, að taka nú upp hið gamla slagorð um þann herfilega undirbúning, sem þeir sögðu, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði haft í rafveitumálinu. Hér í Reykjavík er nýbúið að koma á fót rafveitu, sem var áætlað, að myndi kosta 6–7 millj. kr., og þegar verkinn var lokið, stóðst áætlunin alveg. En vestur á Ísafirði er nýbúið að byggja litla rafveitu, sem áætlað var, að myndi kosta 600 þús. kr., en allur kostnaðurinn við hana varð yfir 1 millj. kr. Svona menn geta trútt um talað óábyggilegar áætlanir og illan undirbúning. Hvað lengi sem um þetta mál verður rætt, þá stendur eitt fast: Þetta fyrirtæki, hitaveita Reykjavíkur, er mjög öruggt fjárhagslega, og það er ekki aðeins álit bæjarstjórnar Reykjavíkur, heldur einnig erlendra sérfræðinga, er telja hitaveituna mjög öruggt fyrirtæki.

— En það er sízt til þess að gera sig breiða af fyrir hv. 1. þm. Rang. og hv. 2. þm. Skagf., þótt fjárhagseymd þessa lands, sem núverandi stjórnarflokkar eiga sök á, hafi orðið orsök þess, að ekki er hægt að fá lán til verksins. nema með sérstakri fyrirhöfn og meiri en til stóð. Þetta hörmulega fjárhagsástand. sem núverandi stjórnarflokkar eru valdir að, hefir nú orðið ástæða til þess, að töf er orðin af þessu máli. Mér dettur ekki í hug að gera mig neitt auðmjúkan fyrir þessum mönnum. Þá langar ef til vill til að stöðva þetta mái, en ég veit. að þeir þora það ekki. Engin ástæða er til þess að taka þegjandi við köpuryrðum og skömmum frá þeim mönnum, sem vilja leggja stein í götu þessa máls og hlakka yfir því, að þykjast hafa ástæðu til að viðhafa nokkurt málþóf um það. Það sýndi sig hér um daginn, hvað þeir hafa viljað málinu vel. Það hefði nú verið búið fyrir löngu að afgr. það — það tel ég alveg vafalaust —, ef þm. stjórnarflokkanna hefðu ekki tafið það. Engir menn eru meiri þröskuldur í vegi þessa máls heldur en þeir. Bæjarfélagið sjálft hefir nú þegar lagt fram 1/5 af stofnkostnaði hitaveitunnar. Með slíku framlagi er alveg óhugsandi að stöðva málið til lengdar, þar sem það bæjarfélag landsins, sem er fjárhagslega sterkast, á í hlut. Ég skil ekki í, að nokkur annar bær á landinn treysti sér til að leggja það fé fram. sem Reykjavíkurbær hefir lagt til þessa fyrirtækis. og fyrirtækið er svo öruggt, að það verður ekki talið eyðslulán, þótt allháa fjárhæð verði að taka að láni til viðbótar. Ég sé ekki, að unnt sé með rökum að koma með vantraust á fjármálastjórn Reykjavíkur, en verði sömu stefnu haldið áfram á fjármálastjórn ríkisins. endar það vitanlega með því að gera hvern mann eignalausan. Ef illa hefir verið farrið með fé, er það öðrum en bæjarstjórn Reykjavíkur að kenna. En verði haldið áfram sömu eyðslu á fé ríkisins, getur þetta fyrirtæki strandað. vegna þess að búið er að aka ríkinu út í fjárhagslega ófæru með allskonar fjársóun, sem því miður hefir átt sér stað. En hitaveita Reykjavíkurbæjar mun koma þrátt fyrir það. Það er got: fyrirtæki, og fyrir því máli standa ekki aðeins Reykvíkingar, heldur líka allt almenningsálit í landinu.