11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Forseti (JörB):

Það hafa komið fram óskir um það, að málið verði tekið af dagskrá og umr. frestað, þegar þeir hefðu talað, sem þá stóðu á mælendaskrá. Og nú stendur svo á, að þeir hafa lokið máli sinu. En þar sem nú er afráðið að slíta þingi á morgun, og þetta mál á eftir að ganga algerlega gegnum hv. Ed., þá mundi frestun á umræðu þýða það, að málið dagaði uppi. Nú hefir mér skilizt svo á hv. þdm. sem þeir væru ásáttir um, að þetta mál gangi fram, þótt þannig hafi að vísu verið stefnt í umr. sem hið gagnstæða væri tilgangurinn. Ég mun því ekki verða við þeim óskum að taka málið af dagskrá, en hinsvegar nota ég mér þann rétt, sem ég hefi til að takmarka umræður, þegar svo stendur á sem nú, og færi ræðutíma hvers þm. niður í 5 mínútur. en gef 2 mínútur fyrir athugasemdir. (PO: Hver óskaði, að málið yrði tekið af dagskrá: — Rödd: Það var hérna, góði minn).