11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil Byrja á að láta í ljós undrun mína yfir því, að hér tala menn alltaf eins og taka eigi lán hjá ríkinu. Það er ekki ólíklegt til að lána ! Þetta er svo skoplegt, að það tekur varla að tala um það. Og það er talað um, að Reykjavík geti ekki tekið lán, nema að leita á náðir ríkisins, eins og þessi — landsfrægi bráðum — hv. 1. þm. Rang. komst að orði, vitandi sjálfur, að það er hið mikla fjárhagsóreiðufen, sem þessir menn eru nú að skapa, sem er þess valdandi, að ekki þykir fært að lána meira fé til landsins. Það er næstum að segja grátbroslegt, þegar hæstv. fjmrh., sem hefir gortað af því við hver áramót í tveimur ræðum, hvað fjárhagur ríkisins hafi farið síbatnandi, en í lok hvers þings — ef ekki í byrjun — komið og beðið þingið um heimild til að taka lán til þess að fela það fen, sem hann hefir skapað á umliðnum árum, — það er grátbroslegt, þegar þessi ráðh. og hans fylgifiskar hér á þingi eru að hneykslast á því, að borgarstjóri Reykjavíkur fer til þess að leitast fyrir um lán til hins mesta þjóðþrifafyrirtækis, án þess að ráðgast um þetta við hið skinandi vel stæða ríki, sem gengið hefir fyrir hvers manns dyr í tíu ár til að velta vöngum og gera sig sem ömurlegastan betlara, og þar sem meira að segja núverandi fjmrh. hefir gengið undir það jarðarmen að skuldbinda sig til að leita nú ekki leyfis um meiri lán, ekki einu sinni ábyrgðar fyrir láni til nokkurs manns, hversu þarflegs fyrirtækis, sem um væri að ræða.

Ég hefi svo stuttan tíma, að ég get ekki farið út í að ræða við hv. 1. þm. Rang. Hann spurði, til hvers Reykjavík hefði beðið um ríkisábyrgð. þegar hún er svona vel stæð. Hann veit vel sjálfur, að Reykjavík er ekki synjuð um lán fyrir það, að hún sé ekki vel stæð og fyrirtækið ekki gott, heldur vegna þess, að ríkið hefir með ráðstöfunum sínum beinlínis sett lánveitingar til landsins í hættu um það, að lánveitendur fái ekki yfirfærðar sínar afborganir og sína vexti. Það er ríkið, sem ræður yfir þessu.

Annars vil ég segja það út af því, sem hv. þm. sagði um þingrofið 1931, að það er ekki að búast við, að hann hafi athugað vel þær yfirlýsingar, sem Framsfl. gaf þá út af væntanlegri Sogsvirkjun, því að hann var ekki í flokknum. Ég veit ekki, hvar hann var þá í hringnum, því að hann hefir verið í flestöllum flokkum og er nú búinn að bita í sporðinn á sér. Og ég verð að segja, að af öllum þeim eymdarlánum, sem núverandi stjórnarflokkar hafa tekið, er það áreiðanlega mesta óhappalánið, sem hann tók, þegar hann fékk þennan þm. að láni hjá kommúnistum.