11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Eiríkur Einarsson:

Það var um langt skeið í kvöld, að allir ræðumenn byrjuðu ræður sínar með þessu: Það skal ekki verða langt. En það varð lengra en menn ætluðu sér. En nú segir hæstv. forseti: Það skal ekki verða lengra en 5 mínútur. Annars stóðst ég ekki mátið að nota þennan rétt, til þess aðeins að láta í ljós nokkra undrun mína yfir því, hvernig gangur málsins er undir þessum umræðum. Það var komið í það horf í kvöld, þetta mál, að mér virtist, að allir hv. dm., eða allflestir a. m. k., væru á eitt sáttir um, að málið ætti að ná fram að ganga. Og allir, sem tóku til máls, lýstu yfir því, hver á sinn veg, að það væri svo mikils góðs af því að vænta, að það bæri ekki á neinn hátt að setja stein í veg þess. Þar virtist enginn pólitískur ágreiningur. Ágreiningurinn, sem um var að ræða, var þetta, hvort ábyrgjast skyldi alla væntanlega fjárþörf fyrirtækisins, 100%, eða 80 eða 90%. eftir till., sem lágu fyrir. Og það fóru fram skipulegar rökræður um þetta, og það virtist útrætt. En hvað skeður svo? Það er hleypt eldi í málið, eins og svo oft, því miður, á Alþingi (Fjmrh.: Hver gerði það?) Deilurnar bera þess vitni, hverjir það hafi verið, og það getur hver spurt sjálfan sig að því í einrúmi, þegar hann kemur heim í kvöld. Ég vil segja, að þetta hafi verið mikill óþarfi og þetta hafi verið illa farið. En það er eins og oft hefir komið fyrir, að það eru flokkserjurnar, sú illa fylgja bæði fjöldans meðal þjóðarinnar og eins, því miður, hins háa Alþingis, — það eru flokkserjurnar eða hið lakara í fari flokkanna, sem hér hefir sem oftar viljað hlaupa fram fyrir málefnið sjálft, og það mikilsvert málefni. Ég vil gjarnan mega tala hér í þrjú kortér og reyna þá að haga orðum mínum svo sem ég væri að segja „bí, bí og blaka“ við óþægt barn, þangað til nálgaðist sá blundur, sem hentaði undir atkvgr.

Fyrr á þinginu var hér rætt um möguleikana á stríðshættu og ráðstafanir, sem gera bæri gegn henni. Varkárni þeirri, sem þar kom fram, var svarað af ríkisstj. á þá leið, að hún hefði það mál til athugunar. En ég fullyrði það alveg, að eitt meginatriðið í þessu máli, sem liggur fyrir nú. er einmitt, að hér geti orðið nóg af því, sem áður varð að sækja með miklum kostnaði til annara. Kolin eru ekki lítill innflutningsliður, og þó að ekki væri um aðra kosti að ræða, mætti vissulega hugsa hitaveitumálið út frá því sjónarmiði. Hitinn er nú orðinn nógur í svipinn og séð, hvar þarf að bora. Það hefir gosið upp úr hér, og er betra að strókurinn sá lækki sem fyrst.