11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég hefi haldið mér við það málefni, sem er til umr., og vil því ekki fallast á ámæli hv. 6. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. um, að ég hafi haft í frammi málþóf.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi nú hafa það sér til málsbóta því, að hann sem einn af þm. Rvíkur kemur bónorðsför til hinnar hötuðu ríkisstj., að ríkið sé að bögglast með lán, sem setji lánveitendur í hættu um að fá lán sín yfirfærð. Hv. þm. segir þetta, þó að hann viti, að það lán. sem ríkisstj. er að taka. er gjaldeyrislán, sem fyrst og fremst á að tryggja yfirfærslu á lánum, m. ö. o., með lánsheimildinni hefði Rvík fengið tryggða yfirfærslu á þessu hitaveituláni til þriggja ára. Þetta kemur því úr hörðustu átt og sýnir, hvaða vandræði þm. Sjálfstfl. eru komnir í.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að mér færist ekki að minnast á ónógan undirbúning máls, svo ónógur undirbúningur sem hefði verið að rafveitumáli Ísfirðinga. Ég skal fullkomlega viðurkenna, að það mál var ekki nægilega undirbúið, en til þess eru vitin að varast þau. Þó er sá höfuðmunur hér og á Ísafirði, að hér er lagt í að leggja hita, sem að hálfu leyti er ekki til, en rafstöðina á Ísafirði þurfti aðeins að stækka um 40%, og það gerði framkvæmd verksins svo dýra. Annars vil ég segja um það, að verið sé að ganga á hlut Rvíkur með því að ætlast til, að hún útvegi 700 þús. kr. innlent lán, að Ísafjörður hefir vegna áhuga borgaranna og samtaka um rafveitumálið getað lagt fram af sinni miklu fátækt yfir 100 þús. kr., en svo er það álitin ofætlun fyrir þennan ríka bæ, Reykjavík, að leggja fram 700 þús. kr. Ég verð að segja, að fyrir þá menn, sem fyrir 3 vikum, töluðu um, að taka mætti allt lánið til hitaveitunnar, sem sé 31/2 millj., innanlands, er þetta gjaldþrotayfirlýsing, að koma nú og segja, að verið sé að tefja fyrir verkinu með því að ætlast til, að einn fimmti hluti lánsins sé tekinn innanlands.