11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Bjarni Bjarnason:

Hv. 6. þm. Reykv. ætlar að halda áfram sinni fögru málafærslu til síðustu stundar. Framkoma hans dæmir sig sjálf, og mun ég ekki fjölyrða um hana. En ég vil benda á það. þó að bæði mér og öðrum hv. þdm. sé ljóst, hve mikilsvert hitaveitumálið er, enda munum við ljá því fylgi okkar, — þá er okkur einnig ljóst, að fleiri mál eru stórmál. Ég vil benda á, að ríkið hefir nýlega gengið í ábyrgð fyrir láni til virkjunar Sogsins, og væri betra, að það gengi í frekari ábyrgðir fyrir rafveitulánum en hitaveitu Reykjavíkur. Rvík ein hefir fengið rafmagn frá Soginu. Það er þó réttlætismál, að fleiri fái að njóta þess, og eðlilegra að halda áfram að styrkja það fyrirtæki. Fyrir helminginn af því fé, sem hér er um að ræða, mætti veita Soginu til Eyrarbakka og Stokkseyrar og bæja, sem eru á þeirri leið, til Vestmannaeyja, Akraness og Borgarness, og ég fullyrði, að þjóðinni er miklu skyldara að gera þetta en að sjá Rvík einni fyrir hitaveitu. Það þarf enginn þm. né Reykvíkingur að halda það, að við, sem erum fulltrúar flokksins í byggðum landsins, sjáum ekki önnur mál, sem okkur eru skyldari. Það verður fróðlegt að sjá, hversu nú tekst til í næstu framtíð, því að ef á að halda áfram endalaust að hlynna að Rvík á allan hátt, en láta byggðirnar afskiptalausar, verður að grípa til einhverra ráða.