23.02.1938
Sameinað þing: 4. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1939

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Umr. þær, sem hér hafa farið fram að þessu sinni, hafa verið með nokkuð öðrum blæ en venja er til við þetta tækifæri. Það hefir lítið verið rætt um fjármálin, heldur hafa umr. snúizt um hið almenna pólitíska ástand og því líkst meira eldhúsumræðum en umr. um fjárlögin sjálf.

Ég skal þá fyrst beina nokkrum orðum til hv. 4. landsk. Hann sagði m. a., að ennþá væri ekki tímabært fyrir Framsfl. að yfirgefa landbúnaðarmálin, þar væri töluvert óunnið enn. Þessu er hv. þm. því að svara, að hann þarf ekkert að óttast í þessu efni. Framsfl. mun eins og hingað til láta mál landbúnaðarins til sín taka, og það alveg án hvatningar eða bendingar frá þessum hv. þm. — Þá vildi hv. þm. reyna að láta skina í það, að laun aðalbankastjóra Búnaðarbankans væru ekki aðeins 12 þús. kr., heldur hefði hann ýmsar launabætur, sem næmu 10 þús. kr. En þetta er ekki rétt. Laun bankastjórans eru 12 þús. kr., alveg án nokkurrar uppbótar, og eru þau þannig 7200 kr. lægri en laun fyrrv. bankastjóra. — Þá vildi hv. þm. halda því fram, að skuldir þjóðarinnar við útlönd færu vaxandi, en þetta er heldur ekki rétt, og nægir því til sönnunar að vísa til skýrslu hagstofunnar um viðskiptin við útlönd 1936. Einnig vildi hann halda því fram, að skuldir ríkissjóðs hefðu hækkað í stjórnartíð minni; því leyfði hann sér að halda fram, þrátt fyrir staðreyndir þær, sem ég benti á í ræðu minni um þetta atriði. Eins og tekið hefir verið fram, þá hafa skuldir ríkissjóðs hækkað í stjórnartíð minni um 4 millj. kr., sem stafar af því, að þessar 4 millj. voru lán, sem Útvegsbankinn skuldaði, en ríkissjóður var í ábyrgð fyrir og var því fært yfir á hann. Allt, sem ég hefi sagt um þetta efni, stendur því óhaggað, þrátt fyrir allar staðhæfingar þessa hv. þm.

Hv. 1. þm. Reykv. fór víða í ræðu sinni og allgeyst með köflum, eins og hans er vandi. M. a. minntist hann á síðustu hækkun mjólkurverðsins og átaldi Framsfl. fyrir hana, þrátt fyrir það þó að það sé fullkunnugt öllum, sem eitthvað fylgjast með í þessum málum, að mjólkurhækkunin var gerð fyrir eindregnar kröfur sjálfstæðismanna í bændastétt, þar sem ekki var aðeins farið fram á 2 aura hækkun á lítra, heldur 7 aura hækkun. Hér koma því fram hin venjulegu óheilindi Sjálfstfl., að láta óviðkomandi menn róa undir í málunum, eins og t. d. bústjórann á Korpúlfsstöðum, og þykjast svo hvergi nærri koma, en reyna að skella skuldinni á aðra af sínum eigin óheillaverkum. Þá fór hv. þm. mörgum orðum um, að frv. það. sem hér liggur fyrir, væri miklu hærra í útgjöldum en fjárlagafrv. það, sem lagt var fyrir síðasta þing. Þetta er í sjálfu sér rétt, en þannig stendur á því, að inn í frv., sem hér er til umr. nú, eru settar greiðslur, sem síðast Alþ. samþ., áður en því sleit. Eftir orðum hv. þm. gat þetta því litið þannig út í augum almennings, að frv. væri hærra en fjárlögin, sem samþ. voru á síðasta þingi, en það er ekki rétt.

Í þessu sambandi er dálítið fróðlegt að athuga, hvernig kveður við annan tón hjá hv. sjálfstæðismönnum þar, sem þeir ráða sjálfir yfir fjármálum, eins og t. d. hér í Reykjavík. Við síðustu bæjarstjórnarkosningar var á það bent af ýmsum, að skuldir Reykjavíkurbæjar hefðu aukizt allmjög á seinni árum. Til þess að verja þessa skuldaaukningu bæjarins fluttu þeir margar ræður, bæði í útvarp og á mannfundum, auk þess sem miklum hluta af blaðakroti þeirra var og varið til þess. Þá var og hagfræðingur bæjarins látinn setjast við að reikna og reikna og skrifa margra metra langa blaða dálka til þess að sanna fólkinu, að öll þessi mikla skuldaaukning bæjarins væri ofureðlileg, og á einum stað kemst hann m. a. svo að orði: „Það er mjög eðlilegt, að flest útgjöld bæjarfélagsins aukist örar en sem svarar fólksfjölguninni. Hin félagslega þróun krefst þess. Verksvið hins opinbera eykst og stækkar, borgararnir gera meiri kröfur til þess með hverju ári, sem líður“. Hér er ekki verið að býsnast yfir því, að greiðslurnar fari hækkandi, því er þvert á móti slegið föstu, að svona eigi það að vera; það sé hin eðlilega þróun. Sannleikurinn í þessum málum er sá, að hér á Alþingi hefir verið lögð mikil vinna í það að reyna að halda útgjöldunum niðri, reyna að komast hjá hækkunum, þrátt fyrir hinar auknu kröfur, sem sífellt fjölgar. Hversu mikil vinna hefir t. d. ekki verið lögð í það að reyna að finna möguleika til lækkana, til þess að vega á móti hinum miklu útgjaldakröfum, sem óumflýjanlegar hafa komið fram um stuðning við sjávarútveginn og atvinnuvegina yfirleitt?

Hann sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að tekjur ríkissjóðs hefðu hækkað að miklum mun. Ég sagði aðeins, að tekjurnar hefðu aukizt frá 1936 um 10%, eða ca. 1. millj. Aftur á móti byggist ég við, að hinir nýju tollar og skattar myndu nema 3–4 millj. Þetta staðfestir aðeins það, sem ég hefi margtekið fram hér áður, að með hinum nýju sköttum er aðallega verið að vinna upp rýrnun hinna nýju fyrri skatta og tolla. Hvað snertir útgjöld síðastl. árs, þá voru þau alveg óvenjuleg. Ég segi óvenjuleg, því að sem betur fer, er það ekki venjulegt, að hér geysi drepsóttir, sem valda stórtjóni á búpeningi landsmanna, eins og síðastl. ár. — Þá sagði þessi hv. þm. og ennfremur, að skattarnir væru allt of háir hjá okkur eins og þeir væru settir nú, ríkissjóður þyrfti, ekki á öllum þeim tekjum að halda. Þetta er bara staðhæfing út í loftið hjá hv. þm., fyrir henni getur hann engin rök fært. En færi svo, að tekjurnar reyndust of miklar, þá held ég, að það væri engin goðgá, þó að eitthvað væri þá borgað af skuldum umfram það, sem hægt er að komast minnst af með.

Ég skal ekki fara mikið inn á umr. um gjaldeyrismálin umfram það, sem ég þegar hefi gert. Hv. þm. sagði, að ég væri ánægður með þau eins og þau væru. Þetta er að sjálfsögðu að nokkru leyti útúrsnúningur á orðum mínum. Ég hefi jafnan sagt það, að æskilegast væri, að ekki þyrfti að gefa út gjaldeyrisleyfi, sem ekki væri hægt að innleysa á réttum tíma. En við það er ekki alltaf gott að ráða. Gjaldeyris- og innflutningsnefnd úthlutar leyfunum með alveg sérstöku tilliti til þeirra afurða, sem liggja fyrir í landinu og ætlaðar eru til sölu á erlendum markaði, en það geta komið fyrir ýms óviðráðanleg og ófyrirsjáanleg atvik, sem grípa hér inn í og valda meiri og minni erfiðleikum. Þannig kom það t. d. fyrir síðastl. ár, að síldarolían seldist ekki eins og gert var ráð fyrir, ekki aðeins það, að hún seldist ekki fyrir það verð, sem áætlað var, sem voru £ 19–20 pr. smálest, heldur varð mikill hluti hennar óseljanlegur, og er því óseldur enn. Það eru aðeins líkur til, að nú megi selja þessa dýru framleiðslu á £ 12—13 pr. tonn.

Þá breiddi hv. þm. sig töluvert út yfir það, sem ég sagði í ræðu minni, að hin ýmsu iðnfyrirtæki, sem komið hefði verið að fót nú á síðustu tímum hefðu orðið allþung á gjaldeyrinum. Hann vildi halda því fram, hv. þm., að það hlyti eitthvað að vera bogið við þessar framkvæmdir, ef þær léttu ekki á gjaldeyrinum frekar en hitt, þegar þær væru teknar til starfa. Máli mínu til sönnunar skal ég nefna mjög nærtækt dæmi, en það er Sogsvirkjunin. Hún þyngir allmjög á gjaldeyrinum eins og nú standa sakir, þar sem kaupa verður áhöld handa fólkinu, fyrir fleiri tugi þúsunda svo að það geti hagnýtt sér hina ódýru orku. Annars ferst hv. sjálfstæðismönnum ekki að vera með mikinn hávaða út af þessum málum, því að reynslan hefir jafnan orðið sú, að hafi þeir eitthvað komið nálægt þeim, þá hafa þeir sízt gert þau léttari fyrir. Þvert á móti þyngri og þyngri.

Þá er tími minn á enda. Ég ætlaði að svara hv. 1. landsk. þm. svolitlu en það verður að bíða í þetta sinn.