12.05.1938
Efri deild: 77. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál. En það eru aðeins örfá orð um þetta atriði, hvort eigi að veita ábyrgð fyrir 80%, 90% eða 100% af lánsupphæðinni. Ég get ekki verið í neinum vafa um það fyrir sjálfan mig, og ég skil heldur ekki i, að aðrir þurfi að vera í vafa um, að það getur ekki talizt rétt að veita ábyrgð fyrir 100% af lánsupphæðinni, fyrir þá sök, sem hæstv. fjmrh. benti reyndar á, að það er nauðsynlegt að halda fast við þá grundvallarreglu viðvíkjandi þessum ábyrgðum, að þeir, sem hlut eiga að máli, leggi eitthvað fram sjálfir, því að annars yrðu lánsábyrgðarbeiðnirnar alveg endalausar og ekkert, sem setti skorður fyrir því, að um slíkar ábyrgðir sé beðið, og til þess að lögð sé áherzla á að framkvæma þau verk, sem beðið er um ábyrgðir fyrir lánunum til að framkvæma. Ef haft er þetta öryggi, að þeir, sem ríkið gengur í lánsábyrgðir fyrir, leggi fram 10–20% sjálfir, þá tryggir það, að þeir ráðist ekki í fyrirtæki, nema þeir hafi trú á fyrirtækinu. Þetta öryggi er í sjálfu sér nauðsynlegt. Og í þessu máli er um það að ræða, að sá, sem ræðst í fyrirtækið, leggi fram 10% af stofnkostnaðarupphæðinni sjálfur. Þessi 10% þessa láns nema bara skuldum, sem safnazt hafa fyrir hjá bænum. En sleppum því. Ég er hissa á því og mér þykir miður farið, að Reykjavíkurbær skuli hafa beðið um meiri ábyrgð en fyrir 80% lánsins. Þó að við lítum á þetta mál sem mikið framfaramál, ef það verður vel framkvæmt, sem ég vil vona, að það verði, þá ber á það að líta, að þessari reglu, að ríkið gangi aðeins í ábyrgð fyrir 80% lánsupphæðarinnar, hefir verið fylgt í seinni tíð um þau lán, sem ríkið hefir gengið í ábyrgð fyrir bæjarfélög, eins og t. d. Akureyrarbæ vegna rafveitu þar, og Ísafjarðarkaupstað.

En þegar við lítum á þetta mál, þó að við álítum það mikið nauðsynjamál, þá er ómögulegt annað en að sú hugsun komi upp hjá okkur, að nú. þegar við erum að veifa þessa ábyrgð fyrir hitaveitu til Reykjavíkur, er það mjög margt, er þarf að gera, og þá bugsum við óhjákvæmilega um allar þær ábyrgðir, sem neitað hefir verið um og neitað er um til annara aðkallandi hluta. Hér í Rvík er búið að framkvæma (án þess að ríkisábyrgð hafi þó verið veitt fyrir því öllu) vatnsveitu, tvær rafmagnsveitur, — önnur með allt að 7 millj. kr. ríkisábyrgð —, og nú á að koma hingað til Reykjavíkur heitt vatn. En á sama tíma er beðið um fyrir einstök kauptún og þorp hér í nágrenni, að þau fái ríkisábyrgð til þess að leiða til sín það rafmagn, sem nú er afgangs við Sogið og verður þar að engu; og við getum ekki orðið við þeim beiðnum. Rafmagnið flæðir til Reykjavíkur og hún hefir nóg rafmagn. Menn vita, að það fer mikið rafmagn forgörðum í Soginu, verður þar að engu. En við getum ekki leitt það til þeirra staða, sem þurfa að fá það, Vestmannaeyja, Stokkseyrar, Eyrarbakka, Keflavíkur. Þetta verða íbúar þessara staða að búa við, meðan við erum að stofna til nýrra þæginda hér í höfuðstaðnum. Við verðum einnig að neita Akranesi um ríkisábyrgð fyrir láni til þess að geta komið á hjá sér svo einföldum lífsþægindum eins og vatnsveitu, sem Akranes hefir reynt að fá ríkisábyrgð fyrir. Þess vegna verðum við ákaflega mikið að gæta að okkur, þó um það sé að ræða að framkvæma nauðsynjamál, að framkvæma þá ekki um leið það, sem má orða þannig, að það sé fullkomið ranglæti gagnvart öðrum stöðum, sem ekki fá að njóta ríkisábyrgðar fyrir lánum til framkvæmda hjá sér. Þess vegna er ég hissa á því, þegar Reykjavík fer fram á ríkisábyrgð fyrir meiru en 80% af láni til að framkvæma þetta fyrirtæki, sjáandi það. að þorpin hér í nágrenninu bíða eftir rafmagni, sem þegar er til, og þegar aðrir bæir hafa ekki fengið meiri ábyrgðir í seinni tíð en fyrir 80% af lánum til sinna framkvæmda. Þó að ég muni nú fylgja brtt. um 90% ábyrgð, get ég vel viðurkennt, að það er alveg vafasamt, hvort það er réttlætismál, að þetta fyrirtæki gangi um ríkisábyrgð á undan öðrum, jafnvel þótt ekki væri um meiri ábyrgð hér að ræða en fyrir 80% lánsupphæðarinnar, hvað þ,í er farið er fram á 100% ábyrgð. Og þeir, sem ætla sér að að fylgja því, að ríkið veiti ábyrgð fyrir 100% lánsupphæðarinnar, mega vita, að það er ekki í samræmi við réttlætistilfinningu fólksins, að Reykjavík fái 100% lánsábyrgð fyrir hitaveitu.