12.05.1938
Sameinað þing: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

Afgreiðsla þingmála

Pétur Ottesen:

Ég og hv. þm. G.K. höfum sömu sögu að segja og hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf., að þær till., sem við höfum borið hér fram og snerta mjög einn stærsta atvinnuveg þjóðarinnar, síldveiðarnar, hafa ekki verið teknar á dagskrá. Þessar till. hafa gersamlega verið hundsaðar og látnar víkja fyrir öðrum málum. Ég vil ekki fella dóm um það, hve mikils virði þau mál eru, en ég vil leyfa mér að segja, að þýðing og gildi þess, að Alþ. láti vilja sinn í ljós um þær till., sem við höfum borið fram, hafa ekki minni þýðingu en sum þau mál, sem haldið hefir verið hér til streitu og knúin fram í þinginu. Ég vil þess vegna, þar sem þetta er síðasti dagur þingsins og því útséð um, að við, sem stöndum að þessari till., verðum að beygja okkur undir þann órétt og þá ósanngirni, sem við höfum verið beittir með því að hundsa þannig okkar mál, þá vil ég gjarnan, eins og hv. þm. A.-Húnv., skjóta máli mínu til hæstv. atvmrh. og spyrja hann, hvort hann vilji ekki styðja að því, að reynt sé að bæta fyrir syndir og afglöp þeirra manna, sem eru þess valdandi, að Alþ. fær ekki að segja álit sitt um þetta mál. Ég vil spyrja hann, hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því, að þeir, sem stunda síldveiðar við Faxaflóa, verði ekki beittir öðrum eins fantatökum og þeir hafa verið beittir undanfarið, þar sem mönnum hefir verið bannað að veiða síld til söltunar, eða ekki fengið leyfi til þess fyrr en seint og síðar meir, þegar tækifærið var að renna út og verkfall var á Akranesi, sem eyðilagði möguleikana til að notfæra sér þetta. Ég vil nú mjög skora á hæstv. atvmrh., að hann gefi yfirlýsingu um það, að veiðiaðferðum og veiðibrögðum verði að engu leyti spillt fyrir íhlutan þeirra manna, sem nú hafa yfirráð þessara mála. Ég veit, að með þeirri skipan, sem gerð var á síldarútvegsnefnd á siðasta þingi, þá geta menn borið meira traust til hennar en áður. En brennt barn forðast eldinn, og þeir menn sitja í nefndinni enn, sem gert hafa sig bera að ósanngirni í þessum efnum; Þó er ekki fyrir það að synja, að þeir séu síður líklegir til að beita slíku, þar sem þeir hafa óhentugri aðstöðu til að koma sínum skemmdarverkum fram eftir hina nýju skipan nefndarinnar.

Það er hatramlegt, eins og var á síðasta sumri, að þar sem búið er að leggja margar milljónir króna í hafnarbætur við Skagafjörð og Húnaflóa, þá skuli vera bannað að verka síld á þessum höfnum með slíkum hætti, sem hér er farið fram á. Slíkt er náttúrlega ekki hægt að þola, og það er þess vegna ekkert undarlegt, þó fulltrúar þessara kjördæma reyni að brynja sig gegn slíkum ófögnuði. Það er mjög óeðlilegt og ósanngjarnt að leyfa ekki þinginu að segja álit sitt um þetta mál. En það er komið sem komið er með það, og nú er að heyra, hvað hæstv. atvmrh. treystir sér til að gera, svo hlutur þessara manna verði ekki fyrir borð borinn.