12.05.1938
Sameinað þing: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

Afgreiðsla þingmála

Pétur Ottesen:

Ég vænti þess, úr því að hv. þm. Ísaf. hefir fengið að tala hér alllangt mál, að ég fái að gera það líka. Ég vil segja hv. þm. Ísaf. það, að ég ætla ekki að biðja hann neinnar fyrirgefningar, enda er enginn maður til, sem getur fyrirgefið honum þau afbrot, sem hann hefir gert sig sekan um í þessum málum. Hann þarf ekki að vænta neinnar fyrirgefningar frá þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli. Hann er búinn að drýgja þær höfuðsyndir í þessum málum að undanförnu, að slíkt verður ekki fyrirgefið. Ég verð að segja, að það er talsvert táknandi um það, hvernig litið er á hag sjávarútvegsins eða þeirra manna, sem að honum standa, að hv. þm. Ísaf., með þeirri fortíð, sem hann hefir í síldarmálunum, skuli vera falið að fara áfram með þessi mál. Það sýnir, hve vanskilið það hlutverk hefir verið, sem hv. þm. hefir verið að leika í þessum málum, af löggjöfum þessa lands, að það skuli ekki vera búið að setja hann af fyrir löngu, og það er skýr og ótvíræður vottur þess, hve gersamlega óhafandi það er að láta pólitíska valdið í landinu skipa menn í stöður, sem mikið veltur á fyrir atvinnureksturinn, að vel takist.

Það var svo hér við Faxaflóa, að þar gátu menn veitt mikið af síld og selt hana, en þá var mönnum gersamlega neitað um að salta síld og selja hana af nefndarinnar hálfu. Þetta kom sannarlega hart niður, því þá hafði verið einhver sú lakasta þorskveiði, sem verið hefir við Faxaflóa, að þeim skyldi þá vera fyrirmunað að nota þá bjargræðismöguleika, sem fyrir hendi voru í þessum efnum. Þó hv. þm. hafi ef til vill fundizt að ég væri nokkuð úrillur og hafi ekki sett upp neinn blíðu- eða vælusvip við hann, þegar ég var að tala um þetta, þá hefði hann átt að sjá framan í fiskimennina við Faxaflóa, þegar þeim var bannað að veiða síldina og nota þá möguleika, sem þeir höfðu til að selja hana. Hann hefði átt að sjá framan í þá, þegar þeim var bannað þetta og lokað var fyrir markaðsmöguleika þeirra í þessum efnum. Það eru löghlýðnir menn, sem við Faxaflóa búa, og vilja yfirleitt ekki gera nokkru kvikindi mein, en þó býst ég við, að ef þessi þm. hefði þá orðið á vegi þeirra, hefðu þeir ekki getað stillt sig um að taka hann og hafa á honum endaskipti og leysa niður um hann og rassskella hann. (Forseti (hringir): Slíkar ræður sem þessi eiga að sjálfsögðu ekki að haldast hér).