02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Það er öllum kunnugt hvernig verkalýðsfélögin hafa tekið í það frv., sem vinnuveitendafélagið stendur að og hv. þm. G.-K., svo það þarf ekki að spyrja þau frekar um það. Þau eru öll gersamlega andstæð því. Verkalýðssamtökin eru á móti þeirri vinnulöggjöf og skoða hana sem kúgunartilraun af hálfu þeirra manna, sem ráða í vinnuveitendafélaginu.

Það er að sjálfsögðu hægt að gera sér tiltölulega fljótlega grein fyrir þeim breyt., sem eru í því frv. mþn., sem sent hefir verið út til verkalýðsfélaganna, það byggir á nokkuð öðrum grundvelli en frv. Vinnuveitendafélagsins, en er þó á ýmsum sviðum svipað. Það má þó segja, að í því sé mjög sterk viðleitni í þá átt að taka tillit til verkamanna, en hún er engin í frv. Vinnuveitendafélagsins. Þetta er þó ekki nóg, því það má gera ráð fyrir, að verkalýðsfélögin hér á landi vilji eiga sinn sjálfstæða þátt í vinnulöggjöf og gera till. um hana. Sérstaklega vilja þau láta það koma greinilega fram, á hvaða sviðum þau eru á móti henni og á hvaða sviðum þau eru með henni. Því verður ekki neitað, að verkalýðsfélögin hafa ekkert á móti vinnulöggjöf, ef hún er þannig, að hún staðfesti þau réttindi, sem þau hafa skapað sér með 20-30 ára baráttu, jafnvel þó á einhverjum sviðum komi takmarkanir á móti. Það er líka víst, að í frv. eins og það liggur fyrir nú eru ákvæði, sem eru þannig, að áliti mjög margra. sem eru starfandi innan Alþfl., að verklýðsfélögin geti ekki sætt sig við þau. Til þess að þetta komi skýrt fram sem álit frá verklýðsfélögunum, þurfa þau að hafa tíma til þess að athuga frv. Í verklýðsfélögunum er það ekki eins og í Vinnuveitendafélaginu, þar sem hinn ráðandi hópur samþ. till. nokkurra manna. sem hv. þm. G.-K. talar fyrir, svo þeir hlýða boði hans og banni. Í verklýðsfélögunum er lýðræði, og þar geta menn látið skoðanir sínar í ljós, hverjar sem þær eru.

Sú minnsta krafa, sem hægt er að gera til þingsins. þegar verið er að gera löggjöf, sem snertir a. m. k. 13 þús. manns í félagsskapnum, fyrir utan alla aðra, sem eru þeim áhangandi, að þeir fái tíma til þess að koma með till. sínar um þetta mál og séu ekki hundsaðir eins og undirstétt. sem ekkert hafi um málið að segja.

Viðvíkjandi innanflokksdeilunum í Alþfl. er mér orðið ljóst, að hv. þm. G.-K. telur sig til hægri mannanna þar. En það mál er ekki á dagskrá í þinginu.