02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mig langar til þess að segja nokkur orð út af því, sem kom fram í ræðu hv. þm. G.-K., formanns Sjálfstfl., og hæstv. forsrh. virðist vera sammála. Það var það. að hv. þm. G.-K. sagði, að ástandið frá því á fyrra þingi hefði ekki breytzt í neinum aðalatriðum, og hann gekk því út frá að hægt væri að afgreiða mál á þessu þingi, og þá sérstaklega fjárl., á svipaðan hátt og síðast. Ég vil láta í ljós, að ég er allt annarar skoðunar um þetta mál. Ég álít það fjárhagslega ástand gerbreytt frá því á síðasta þingi. Síðasta þing, sem hófst í byrjun október, hafði á bak við sig eitthvert bezta fjárhagslega tímabilið á Íslandi síðan kreppan byrjaði, sem sé síldveiðina síðastl. sumar. Það, sem hinsvegar hefir gerzt nú, er, að ný heimskreppa er að byrja fyrir alvöru, og við sjáum á öllum atvinnusviðum mjög óræk merki þess. að þessi kreppa er að færast yfir Ísland. afurðir seldust með bezta móti síðastl. haust, en nú sjáum við, að verð þeirra fellur stórkostlega á öllum sviðum.

Ég álít því, að þetta þing, sem á að semja fjárl. fyrir árið l939, hafi allt aðra aðstöðu en þingið í fyrra og því beri skylda til að rannsaka ýtarlega, hvað hægt sé að gera til þess að mæta þessari nýju kreppu, sem hlýtur að verða skollin á með miklum krafti 1939. Það er óvarlegt af okkur að gera ekki ráðstafanir til þess að mæta slíku við samning fjárl., og við kommúnistar munum bera fram á þinginu till., sem byggast á þessari skoðun.

Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, vildi ég láta þetta í ljós.