27.04.1938
Neðri deild: 55. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

Þingseta varaþingmanna

*Sveinbjörn Högnason:

Mér finnst vægast sagt, að það komi úr nokkuð harðri átt, að hv. þm. G.-K. skuli væna einhverja hv. þm. í þessari hv. d. fyrir, að þeir ræki illa störf sín hér í þinginu, því að ég hygg, að hann sé þar ekki betri en menn svona upp og niður hér í d. Ég er ekki að áfella hann fyrir það, en mér finnst það óviðkunnanlegt, ef ekki má í þinginu sjálfu ræða þetta mál, svo alvarlegt atriði sem hér er um að ræða, sem sé það, hvort d. sé í raun og veru ályktunarfær, ef ég mætti svo segja, þegar atkvgr. veltur kannske á einu atkv. Ég hygg, að hv. þm. G.-K. hafi a. m. k. oft hreyft atriði, sem ekki hefir verið meira virði heldur en þetta, og það er hreinn misskilningur hjá þessum hv. þm., ef hann heldur, að hann einn eigi að gera út um þessa hluti. Ég býst við, að það verði gert út um það eftir því sem lög mæla fyrir og talið er rétt, en ekki eftir því, hvaða pólitískar tilfinningar hann hefir í þessu efni.

Þegar hann talar um, að margt mætti betur fara á þinginu, þá er ég honum sammála um það, t. d. að flokkur þessa hv. þm. væri ekki með stöðugar árásir á vinnubrögð Alþ. um leið og þm. flokksins svo að segja í hverri n. tefja málin eins og þeim er frekast unnt. Ég hygg einnig, að engir hv. þm. séu sekari um að mæta ekki á réttum tíma á fundi í n. til afgreiðslu mála heldur en þm. Sjálfstfl. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar þessi hv. þm. er að tala um, að hér mætti margt betur fara, samtímis því, sem blöð flokksins eru með sífelldar ádeilur fyrir léleg vinnubrögð.

Eins og hv. 8. landsk. las upp, stendur í kosningal.: „Ef þm. Reykjavíkur eða landsk. þm. forfallast sökum veikinda eða annars ...'. Ef þm. forfallast einhverra hluta vegna og á að meta þau forföll sjálfur, þá er þetta ákvæði í 3. mgr. 144. gr. þýðingarlaust. Ég held, að það verði að vera forföll, sem virkilega hindra mann í að geta setið á þingi, og það eru ekki til önnur forföll en að maðurinn falli frá, verði veikur eða sé fjarverandi, þannig að hann geti ekki tekið þátt í þingstörfum. Það eru ekki forföll, þó að þm. hafi það mikil störf með höndum, að hann geti ekki rækt þingstörf, því að þá hefir hann ekki leyfi til að bjóða sig fram sem þm., en ef þm. tekur kosningu, þá er honum skylt að mæta á þingi, ef ekkert sérstakt forfallar hann. Ef túlka mætti orðin „eða annars“ á þann veg, sem hv. 8. landsk. reyndi að færa rök fyrir, þá þyrfti engin ákvæði hér um.

Það er því sjálfsagt, að hæstv. forseti taki afstöðu til þess með úrskurði, hvort hér er um réttmætt atriði að ræða eða ekki. Ég veit satt að segja ekki, hvaða atriði ætti frekar að ræða hér í þinginu en það, hvort þm., sem tekur þátt í atkvgr., hefir virkilega umboð til þess eða ekki.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar, en að endingu vil ég taka það fram, að ég er ekki að ræða um þetta af því, að ég telji þennan hv. varaþm. óhæfari til að sitja á þingi heldur en þann þm., sem hann er varamaður fyrir, heldur af því, að ég vil aðeins, að það komi fram, hvaða regla á að gilda í þessu efni og hvort hægt sé að ganga svo framhjá bókstaf og anda kosningal., að það sé hægt að afgr. mikilsverð mál á Alþ., þó að það sé mjög á huldu, hvort um löglega þátttöku í atkvgr. sé að ræða hjá þm.