23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla aðeins vegna ræðu hv. 5. þm. Reykv. að skýra frá því, að eins og nú standa sakir verða alls ekki byggðir neinir verkamannabústaðir í ár. Það er nýkomið bréf frá stjórn byggingarsjóðsins, þess efnis, að engir peningar verði til þess, og þær skuldir, sem á sjóðnum hvíla, séu svo miklar, að tekjur þessa árs verði allar að fara í greiðslur vegna þeirra skulda. Það er ennfremur nokkuð ógreitt af þeim gjöldum, sem bæjarsjóði Reykjavíkur ber að greiða til byggingarsjóðsins. Það er þannig bersýnilegt, að með þessum fjárframlögum úr ríkissjóði verður ekki hægt að halda verkamannabústaða byggingunum áfram í ár, og ekki heldur á næsta ári. Og það, sem tefur fyrir því m. a., að hægt sé að fá lán handa sjóðnum, er það, að ríkissjóður er að reyna að fá lán hjá sömu stofnun eins og sjóðurinn. Ef ekki eiga að stöðvast byggingar verkamannabústaða, þá verður þingið að gera einhverjar ráðstafanir til þess, auk þess að láta tekjur tóbakseinkasölunnar renna til þeirra.

Með þessari brtt. hv. 5. þm. Reykv. er þessu máli ekki bjargað fyrir árið í ár. En með samþykkt hennar mundi myndast betri grundvöllur fyrir framtíðina til að byggja á í þessum efnum. Og meðan svo er, að ríkissjóður virðist ætla að taka þau lán, sem hægt er að fá frá þessum tryggingarstofnunum, sem lánað hafa áður fé til þessa sjóðs, þá sé ég ekki, hvernig hægt er að auka fé byggingarsjóðsins með öðru móti en því að auka framlag ríkissjóðs til hans. Ef menn vilja ekki láta þessi l. sofa 2–3 ár a. m. k., þá verður það opinbera að skerast betur í leikinn en það hefir gert.