27.04.1938
Neðri deild: 55. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

Þingseta varaþingmanna

*Garðar Þorsteinsson:

Hæstv. forseti hefir úrskurðað þetta atriði í samræmi við skilning minn á ákvæðum þingskapanna og tekið til greina tilkynning hv. 4. þm. Reykv. um. að hann gæti ekki mætt vegna lasleika.

Það var hv. 1. þm. Rang., sem ég vildi mótmæla. Þegar lög eru sett, er annaðhvort talið upp allt, sem þau eiga að ná út yfir, eða nefnd eru fáein dæmi og svo ályktað út frá þeim um hliðstæð tilfelli. Það hefði verið ákaflega auðvelt að telja upp: dauða, veikindi og óhjákvæmilegar fjarvistir í opinberum erindum. — En í stað þess að tilnefna slíkar fjarvistir sérstaklega, nefna þingsköpin „aðrar orsakir“. Þessi grein þeirra hefir því alls ekki tæmandi upptalning, heldur hlýtur það að verða nokkuð á valdi þingmannsins sjálfs að meta, hverjar „aðrar orsakir“ séu gild forföll. Hitt er vitanlega einnig rétt, eins og hæstv. forseti tók fram, að þm. á að mæla á þingi og taka þátt í þingstörfum, þegar með sanni verður sagt, að hann geti mætt. Enda er talið svo sjálfsagt, að þm. geri það, að löggjöfin hefir ekki gert neinar ráðstafanir til að þvinga hann til þess. En orðalagið, þar sem sagt er svo fyrir, að þm. skuli ekki aðeins tilkynna for seta forföll, heldur og hvers vegna hann er forfallaður, sýnir, að gert hefir verið ráð fyrir fleiri orsökum en þeim, sem taldar eru upp í þingsköpunum.