18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

Ráðherraskipti

*forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil ekki láta dragast að tilkynna hér í hv. d., þar sem hæstv. atvmrh. á sæti, að mér hefir í morgun borizt bréf frá honum, þar sem hann óskar eftir, að ég beiðist lausnar fyrir sig úr ráðuneytinu. Ég hefi gert ráðstafanir til, að konungi verði símað í dag, og óska ég þar, að orðið verði við þessari beiðni ráðh. Ég hefi jafnframt lagt til við konung, að mér verði falið að gegna störfum atvmrh. fyrst um sinn, þar til öðruvísi verður ákveðið. Ástæðan til þess, að atvmrh. hefir óskað eftir, að beiðzt væri lausnar fyrir hann úr ráðuneytinu, er þegar kunn hér á hv. Alþ. af þeirri tilkynningu, sem hann gaf í umr. um það frv., sem afgr. var hér fyrir skemmstu um gerðardóm í vinnudeilu þeirri, sem nú stendur yfir, og í bréfi ráðh. færir hann sömu rök fyrir máli sínu og hann gerði hér undir umr.

Mér þykir mjög miður, að svo hefir farið, að samvinna hefir slitnað á þessu máli, en ég er þeirrar skoðunar, að það mál, sem hér var afgr., sé það stórt mál og svo alvarlegt fyrir okkar þjóðfélag og nauðsynlegt, að það væri leyst nú þegar, að ég áleit og er enn viss um, að ég hefi gert rétt. Öll önnur sjónarmið urðu að víkja fyrir því. Ég hefi álitið, að samningaréttur beggja aðilja, bæði sjómanna og atvinnurekenda, ætti að víkja fyrir þeirri nauðsyn. Ég álit, að ekki hafi verið hægt að taka tillit til þess, sem nú er hér fram komið.

En mér þykir það miður, og ég verð að segja það hér í hv. d., að þótt þá tvo flokka, sem hafa haft samvinnu um ríkisstjórn undanfarin ár, hafi greint á um ýmislegt, þá hefir samvinnan í ríkisstj. milli hæstv. atvmrh. og okkar hinna ráðh. ætið verið hin bezta, og hún hefir verið góð, að mínu áliti, mest vegna þess, að í þeirri samvinnu hefir hann sýnt það, sem er undirstaða allrar samvinnu, hinn fullkomnasta drengskap.

Vil ég hér með tilkynna hv. d. þetta á þann hátt, sem ég nú hefi gert, og hefi ekki fleira um það mál að segja að svo komnu.