28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

Ráðherraskipti

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af þessari fyrirspurn skal ég taka það fram, að það er að vísu rétt, að það liggur ekki neitt fyrir um það hér í þinginu, hvort hér sé um þingræðisstjórn að ræða út frá þeim forsendum, sem hv. fyrirspyrjandi talaði um. Út í það skal ég ekki fara, því að það yrði of langt mál. Það er líka rétt, að ég bjóst við því, að nú upp úr helginni myndi vera hægt að gefa Alþ. skýrslu um það, hvaða niðurstöðu ég hefði komizt að, og ég get nú skýrt frá því, að þessar eftirgrennslanir eru svo langt á veg komnar, að það mun ekki verða nema mjög stutt eftir því að bíða, að ég geti tilkynnt það hér á Alþ.