31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

Ráðherraskipti

Ólafur Thors:

Út af tilkynningu hæstv. forsrh. um hina nýju stj. vil ég leyfa mér að hera hér fram 2 fyrirspurnir.

Svo sem kunnugt er, þá rofnaði samvinnan milli stjórnarfl. í beinu tilefni af löggjöfinni um gerðardóminn, sem sett var hér á Alþ. til lausnar kaupdeilu á togaraflotanum. Taldi Alþfl. þessa löggjöf svo freklega móðgun við sína stefnu, að hann af þeim ástæðum dró ráðh. sinn út úr ríkisstj. Ég vildi nú leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann hefir tryggt sér það, að Alþfl. veiti honum hlutleysi, ef til framkvæmda skyldi koma af hálfu ríkisvaldsins til þess að tryggja framgang gerðardómsins.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. þm. Seyðf., hvort hans flokkur líti þannig á þetta hlutleysi, að flokkurinn hafi með því gefið yfirlýsingu um, að hann eftir atvikum muni sætta sig við þessi l., sem urðu þess valdandi, að stj. klofnaði.

Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf. svari þessu nú þegar.