31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

Ráðherraskipti

*Ólafur Thors:

Eins og væntanlega allir hv. þm. hafa heyrt, hefir hæstv. forsrh. svarað mér alveg út í hött. Ég gaf ekki tilefni til þeirrar ræðu, sem hann flutti hér. En ég gaf aftur á móti tilefni til þess, að hann gæfi hér allt aðrar upplýsingar. En þær gaf hann ekki nema að litlu leyti. Ég hefi aldrei látið nein orð falla um það. að ég ætlaðist til, að hann færi hér að rjúka til að draga saman eitthvert lið. Ég held, að mér hafi ekki dottið í hug, að ríkisvaldið gæti né ætti að reyna að beita nokkru valdi til að þvinga einstaklinga innan sjómannastéttarinnar til að ráða sig við kjör, sem þeim ekki líkar. Það liggur í hlutarins eðli, að þetta er alveg fyrir utan valdsvið og verkahring ríkisstj. Að ég hafi talað um þá fjarstæðu, sem hv. þm. Seyðf. gamnaði sér með, að bera sjómenn nauðuga á skip! Ég hefi ekki lagt neina höfuðáherslu á það, sem sjómenn kunna að hafa sagt í hita dagsins, þó að ég hafi lagt á það nokkra áherzlu, og það alveg að verðleikum. En það, sem ég lagði höfuðáherzluna á, er, að sá flokkur, sem ríkisstj. ætlaði að styðjast við, hefði gert öll þessi orð að sínum. Og það, sem ég lagði höfuðáherzlnna á, er það, að í þeim málefnaágreiningi, sem valdið hefir stjórnarklofningi, stendur allt óbreytt frá því, sem það var, þegar stjórnin klofnaði. Hæstv. forsrh. getur ekki komizt undan að samsinna því með mér, að eftir ummælum og blaðaskrifum Alfl. um þetta mál verður að álykta, að slíkt bendi til, að til einhverra atgerða geti komið af hendi ríkisvaldsins. Þetta er kjarni málsins. Formaður þess flokks, sem nú ætlar að veita ríkisstj. stuðning, hefir lýst því yfir, að í þessu máli, sem valdið hefir stjórnarkiofningnum, sé aðstaða Alþfl. óbreytt. Og á því augnabliki leggur hann einmitt ríka áherzlu á það, að minna á, að stuðningur Alþfl. við Framsfl. sé ótímabundinn algerlega. Ég skal víkja að því betur síðar, hverja megináherzlu hæstv. forsrh. hefir í umr. um gerðardómsmálið lagt á að sjá um, að þessu máll væri algerlega borgið í höndum Alþingis, úr því að það væri komið í þær hendur. Og það var sú hugsun, sem varð þess valdandi, að hann gat ekki sætt sig við þá till., sem alþýðuflokksmenn fluttu í þessa átt, enda þótt sú málefnalega aðstaða kostaði það, að stjórnarsamvinnan klofnaði í bili. Ég skal einnig síðar víkja nánar að því, að eins og nú er orðið í þjóðfélaginu, þá er það a. m. k. óvenjulegt hugsunarleysi eða gáleysi, ef hæstv. forsrh. hefir alls ekki dottið í hug, að það þurfi að horfa lengra fram en til dagsins í dag um aðgerðir, beinar og óbeinar, af hendi ríkisvaldsins til að tryggja vinnufriðinn í landinu. Og ég þarf í raun og veru ekki að gera forsrh. neinar getsakir í þessu efni, því ég tel, að það muni nú vera svo, að honum sé þetta talsvert kunnugt, eins og mér. En það, sem er upplýst í þessu máli, enda þótt ég hafi ekki fengið nein greið svör frá hæstv. forsrh., er það, að hann hefir ekki tryggt sinni ríkisstjórn neinn beinan stuðning eða hlutleysi Alþfl., ef til frekari framkvæmda kemur af hendi ríkisvaldsins í því máli, sem hefir valdið stjórnarklofningnum. Þetta er upplýst. Þar sem við sjálfstæðismenn teljum, að margt bendi til þess, að til slíkra framkvæmda geti komið, og margt í þjóðfélaginu geti valdið því, að ríkisvaldið þyrfti á svipuðu sviði að láta til sín taka, og þar sem við að öðru leyti af mörgum ástæðum höfum litið svo á, að sú stjórnarmyndun, sem nú fer fram, sé með nokkuð óvenjulegum og jafnvel óþingræðislegum hætti, þá leyfi ég mér að lýsa því yfir fyrir hönd Sjálfstfl., að við teljum ekki, að sú ríkisstjórn, sem situr að völdum, hafi nægilega trygga aðstöðu til þess, að óhætt sé að fela henni úrlausn hinna miklu vandamála, sem nú eru framundan í þjóðfélaginu. Við munum af þessari ástæðu bera fram vantraust á hæstv. ríkisstjórn.