21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

Verkamannabústaðir

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil í framhaldi af þeim umr., sem hér fóru fram áðan viðvíkjandi byggingum í bænum, beina til hæstv. ríkisstj. eftirfarandi áskorun, sem undirrituð er af 219 meðlimum byggingarfélags alþýðu:

„Undirritaðir meðlimir Byggingarfélags alþýðu, sem enn hafa ekki fengið keyptar íbúðir í verkamannabústöðunum, skora hér með á ríkisstj. og stjórn Byggingarsjóðs verkamanna, að hlutast til um, að Byggingarfélag alþýðu geti fengið nægilegt fé að láni úr byggingarsjóðnum, með lántökum honum til handa eða á annan hátt, til þess að félagið geti þegar á vori komandi hafið byggingu nýrra verkamannabústaða fyrir meðlimi sína, er taka minnst 80–100 íbúðir, tveggja og þriggja herbergja. Viljum við í þessu sambandi sérstaklega benda á:

1.) Húsnæðisþörf meðlima félagsins og Reykvíkinga yfirleitt.

2.) Að íbúðir, sem félagið lætur byggja, eru vandaðar, hagkvæmar og ódýrari en aðrar íbúðir í bænum.

3.) Að gera má ráð fyrir, að yfirleitt verði lítið byggt á þessu ári og því sérstök nauðsyn til, að það, sem byggt verður, komi alþýðu manna að gagni.

4.) Að atvinnuhorfur framundan eru ekki glæsilegar.

Þar sem alllangan undirbúning þarf áður en ráðizt er í að byggja, væntum vér, að félagið fái lánsloforð, svo fljótt sem unnt er“.

Af félagsmönnum hafa 177 þegar fengið íbúðir, en þetta eru þeir, sem enn hafa ekki fengið keyptar íbúðir, að undanteknum nokkrum mönnum, sem ekki hafa talið sig hafa fé til þess, þegar til kæmi. af þessu sést, hversu eftirspurnin eftir þessum íbúðum er mikil, og frá því þessi lög komu til framkvæmda hefir verið byggt annaðhvert ár, og ætti því að vera hægt að byggja í vor.

Af þessum ástæðum vil ég beina þeirri ósk til hæstv. ríkisstj., að hún geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að hægt sé að byggja á þessu ári.