12.05.1938
Sameinað þing: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

Þinglausnir

forseti (HG):

Störfum þessa Alþingis er nú lokið. Það er 53. löggjafarþing frá því er Alþ. var endurreist, en 1008 ár eru liðin frá því að Alþ. var sett á stofn.

Störf Alþ. hafa að þessu sinni, eins og á síðastu árum, mótazt mjög af þeim sérstöku erfiðleikum, sem tveir höfuðatvinuvegir þjóðarinnar eiga viðað búa. Vegna Landbúnaðarins hefir Alþ. sett fjölþætta löggjöf um varnir gegn fjárpestinni og stuðning til þeirra, sem harðast hafa orðið úti af hennar völdum. Ofan á markaðstöð sjávarútvegsins hefir bætzt óminnilegur aflabrestur á þorskvertíð, nú þriðja árið í röð. Hefir þetta Alþ. sett löggjöf um skattaívilnanir til stórútgerðarinnar, og margháttaðan stuðning til sjávarútvegs í heild, svo sem styrk og lán til kaupa á fiskibátum og lán til framlags til kaupa á nýjum togurum, til viðbótar þeim framlögum til ýmiskonar nýbreytni í framleiðslu og verkun aflans og tollaívilnunum, er síðasta þing samþykkti. Jafnframt hefir þetta Alþ. ákveðið, að fram skuli fara rannsókn á hag og rekstri togaraútgerðarinnar, með það fyrir augum, að leitast við að koma þessum atvinnuvegi á öruggari grundvöll en nú er. Þá hefir og framlag til verkamannabústaða verið aukið nokkuð og reynt að leggja svo ríflega til verklegra framkvæmda og atvinnuaukningar sem fært hefir þótt. Á þessu Alþ. hefir í fyrsta sinn verið til þess gripið að setja l. um gerðardóm til þess að úrskurða um ágreining verkamanna, þ. e. sjómanna, og atvinnurekenda um kaup og kjör. Er hér um að ræða nýmæli í íslenzkri löggjöf, sem æskilegt verður að telja, að ekki verði fyrirboði fleiri slíkra. Þá hefir þetta þing og afgr. merkilega löggjöf um réttindi verklýðsfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda og meðferð deilumála þessara aðilja. Með lögum þessum eru stéttarfélög verkafólks loks viðurkennd sem lögformlegur samningsaðili og réttindi þeirra tryggð á ýmsan hátt. Enn má nefna löggjöf um ábyrgð fyrir láni Reykjavíkurbæjar til hitaveitu, sem er einn vottur hinnar ríku og sjálfsögðu viðleitni, sem nú er uppi með þjóðinni til þess að hagnýta upp,prettur auðs og afls okkar gagnauðuga lands.

Þess er að vænta, að dómar um störf þessa Alþ. verði margir og ærið misjafnir, eins og tíðast áður. En það tel ég vafalaust, að allir geti tekið undir þá ósk mína, að störf þess megi verða þjóðinni allri til gagns og aukinnar farsældar, og að lýðræði og þingræði verði jafnan í heiðri haft með þjóðinni.

Að svo mæltu vil ég þakka öllum hv. þingmönnum góð, samvinnu á þessu þingi og árna þeim og landsmönnum öllum árs og friðar og farsæls sumars. heim hv. þingmönnum, sem heima eiga utan Reykjavíkur, vil ég óska góðrar ferðar og heimkomu, og vænti þess, að við hittumst heilir á næsta Alþ.