08.03.1938
Neðri deild: 17. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

11. mál, Raufarhafnarlæknishérað

*Gísli Guðmundsson:

Frsm. allshn. hefir í ræðu sinni gert nokkra grein fyrir því, hvernig þetta mál er til komið.

Eins og hann sagði, hefi ég flutt þetta frv. — að vísu ekki alltaf eins og það er nú — á undanförnum þingum, og er það samkv. áskorunum manna, sem myndu eiga að njóta þess læknis, sem settur yrði í það læknishérað, sem stofnað yrði samkv. frv.

Þegar ég bar þetta frv. hér fyrst fram, þá var það sent til umsagnar landlæknis, og hann taldi það til fyrirstöðu, að erfitt myndi verða að fá nokkurn lækni til að sækja um þetta hérað. Það væri svo fámennt og tekjuvonir litlar.

Þó að í þessu héraði myndu ekki teljast nema 400 manns, þá er það svo, að það eru í rauninni miklu fleiri, sem koma þarna til greina, vegna þess að á sumrin er þarna síldarverksmiðja starfandi, og sömuleiðis kemur þangað fjöldi skipa, sem oft þurfa að leita læknis, eins og gefur að skilja.

Vegna þessara aths., sem fram komu frá landlækni, gerði ég þó þá breyt. á frv., að stofnun héraðsins yrði lögð á vald landlæknis, og var það ákvæði við það miðað, að landlæknir grennslaðist eftir, hvort hægt væri að fá mann til þessa starfs og héraðið yrði ekki stofnað fyrr en gengið hefði verið úr skugga um það. Jafnframt er í frv. ákvæði um það, að á meðan héraðið verði ekki stofnað, þá sé settur læknir á Raufarhöfn yfir mánuðina júní–september, eða yfir síldveiðitímann.

Nú varð sú afgreiðsla þessa máls á seinasta þingi. að það var ekki afgr. af hv. allshn., heldur varð það úr, að fyrir atbeina n. komst inn í fjárl. nokkur fjárveiting til þess að greiða lækni, sem væri á Raufarhöfn yfir síldveiðitímann. Þessi fjárveiting er, ef ég man rétt, 1000 kr.

Yfirleitt sætti ég mig við þessa lausn, en eigi að síður virðist mér þetta ekki fullnægjandi, m. a. vegna þess, að mér finnst dálítið vafasamt, að maður fáist til að gegna þessu starfi fyrir þessa upphæð. Þess vegna bar ég fram frv. í þeirri von, að n. og Alþingi mundu nú sinna þessu máli eitthvað frekar. Það hefir samt ekki orðið svo, að meiri hl. allshn. fengist til að mæla með málinu, heldur hefir hann lagt til, að það yrði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem hér liggur fyrir og ég get ekki sætt mig við.

Ég vil benda á, að þessi staður, sem hér er um að ræða. er ekki allskostar sambærilegur við suma þá staði, sem hv. frsm. nefndi áðan. Ég hjó eftir því, að hann nefndi t. d. Skála á Langanesi og Hólsfjöll, sem eru báðir í sömu sýslu. En sá munur er þar, að þótt á þessum stöðum sé þörf fyrir lækni, þá eru samt ekki búsettir nema 50–70 menn á hvorum þessara staða, en á þessu svæði eru, eins og grg. segir. um 400 manns. Þá nefndi hv. þm. Bæjarhrepp í Strandasýslu, en ég sé ekki, að hann sé heldur sambærilegur, því að hann er fámennur, og þar að auki mun vera bílfært um þann hrepp frá þeim stað, þar sem læknirinn á heima, og því meiri fjarstæða er að nefna Kjalarnes og Kjós, með þeim samgöngum, sem þeir staðir hafa. Á Raufarhöfn hinsvegar er svo ástatt, að ef þarf að leita læknis til Kópaskers, þá þarf að fara yfir heiði, sem er ekki bílfær, eða þá á sjó langa leið, og sama er að segja, ef farið er til Þórshafnar.

Af þessum ástæðum hefi ég ekki getað sætt mig við þá afgreiðslu, sem n. vill hafa á málinu. Ég verð því að telja, að það væri réttlátt og sanngjarnt, að þingið sinnti þeim málaleitunum, sem borizt hafa úr þessum stað, á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, og samanburð þann, sem hv. frsm. var með, tel ég ekki sanna það, sem hann vildi vera láta.