02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frv. — Ég er sammála hv. flm. um það, að færa megi rök fyrir, að rétt sé að veita sjómönnum þessi sérstöku fríðindi, sem farið er fram á að veita þeim með þessu frv. Mér er vel ljóst, að vel má benda á aðra menn, sem gæti komið til greina, að gerðu svipaðar kröfur, eins og frsm. meiri hl. gat um, en ég get vel sætt mig við þá hugsun, sem vakir fyrir hv. flm., að taka sjómenn eina út úr og gefa þeim þessi sérréttindi, því að þar er sú stétt, sem Íslendingar eiga meira undir en flestum öðrum stéttum, og kannske þegar öll kurl koma til grafar leggja einna mest á sig, og a. m. k. dvelur fjarvistum frá sínum heimilum, þegar hún er að inna af hendi sitt þjóðþrifastarf.

Ég viðurkenni sem sagt, að það er hægt að tefla fram nokkurri gagnrýni gegn þessu frv., ef menn vilja það. En ég hefi látið það ráða, sem vakað hefir fyrir hv. flm., að sýna sjómönnunum í verki þessa lítilfjörlegu ívilnun fyrir þeirra mikla og gagnlega starf, sem þjóðinni er svo nauðsynlegt.

Að öðru leyti mun ég ekki hirða um að fara að karpa um þetta. Hver og einn verður að gera í þessu máli eftir því, sem hann hefir löngun og innræti til, og verður hver og einn sjálfur að ákveða, hvort hann greiðir þessu máli atkv. eða ekki.