02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Frsm. minni hl., hv. þm. G.-K., sagðist vel geta fallizt á, að það lægju einhver rök til þess að samþ. þetta frv., en honum láðist að geta um nokkur rök fyrir því að samþ. það. Hann talaði um, að það væri ekki fjarri lagi að verðlauna þessa útlaga, sem þarftu að vera svo lengi frá sínum heimilum, og það er sama hugsunin, sem kemur fram hjá hv. flm. Þetta eiga því að vera einskonar verðlaun til þessarar stéttar, sem leggur það á sig að vera úflagar frá sínu föðurlandi og sínum heimilum um lengri eða skemmri tíma. Mér skildist á hv. 6. þm. Reykv., að þetta ætti að gera fyrst og fremst af því, að þeir væru svo lengi frá heimilum sínum og konum, svo ástæða væri til að veita þeim þessa uppbót. Það er svo með sjómannastéttina, að þó hún eigi ef til vill við erfið kjör að búa og beri lítið úr býtum, þá vilja allir almennir verkamenn þessa lands, eða a. m. k. allur fjöldi þeirra, komast að á skipin. Allir verkamenn, sem það gætu, myndu flykkjast úr sveitinni, ef þetta frv. næði fram að ganga, sem ég geri þó ekki ráð fyrir, að verði. Það yrði því enn eitt til þess að auka aðstreymi fullvaxinna manna úr sveitinni til sjávarins. Ég vil sízt af öllu styðja að því, að slíkt frv. nái fram að ganga hér á Alþ.

Hv. flm. var að tala um, að þeir menn, sem andmæltu þessu frv., lifðu einhverju andlegu holulífi. Ég skal ekki fara að deila um það, hverjir lifi mest andlegu holulífi, hvort það er hv. flm. eða aðrir hv. þm. En mér finnst það ekki bera vott um mjög mikla andlega víðsýni, að taka út úr eina einstaka stétt þjóðfélagsins og veita henni sérstök fríðindi. Ef hefði átt að láta þetta ná almennt til verkamannastéttanna, þá hefði ekki verið um holulíf að ræða, en ef á að taka eina stétt út úr, þá er það andlegt holulif, að vilja ganga inn á þá breyt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Mér virtist bæði á hv. flm. og hv. frsm. minni hl., að þetta frv. sé byggt á tilfinningu, en litlum eða engum rökum. Ég held líka, að þetta frv. eigi ekkert erindi í gegnum þingið.