02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. frsm. meiri hl. byggði mál sitt á því, að þetta byggðist af hálfu okkar, sem erum með þessu frv., á tilfinningu. en ekki á rökum. Ég hélt, að í grg. frv. væru færð rök fyrir þessu máli, sem ég hefi ekki heyrt hv. þm. hrekja á nokkurn hátt. Þar er það fram tekið, að fjölda þeirra manna, sem á sjónum eru, verður ekkert verulegt gagn að þessum hlunnindum, og engum mun verða fullt gagn að þeim. Þau rök eru færð fram fyrir þessu í grg. frv., að þeir menn, sem eru fjarri heimilum sínum, þurfi samt að halda heimili — og það er svo ástatt með allan þorra þeirra manna, sem á sjónum eru, að þeir eru giftir og eiga konur og börn eða aðra aðstandendur, svo sem mæður eða fósturforeldra. Þessir menn þurfa því eins til heimilis að leggja, hvort sem þeir borða heima eða ekki, og húsnæðið er það sama. En þar að auki eru fjarvistir þeirra frá heimilum sínum þess valdandi, að aðdrættir að þessum heimilum eru miklu örðugri og verða dýrari helder en ef þeir væru sjálfir heima og gætu útvegað nauðsynjar þær, sem til heimilanna þarf. Þessi rök standa algerlega ómótmælt, enda hefir ekki verið reynt að hnekkja þeim. Það er einmitt þetta, sem ég vildi leggja áherzlu á í sambandi við þau orð hv. frsm., að þetta ættu einungis að vera verðlaun til sjómannanna fyrir þeirra áhættusama og erfiða starf. Ég vil segja, að þessi litlu hlunnindi væru sízt of ríkuleg verðlaun fyrir slíkt. En það er samt sem áður rangt, að það sé hið eina, sem telja megi gild rök fyrir þessu frv., því eins og ég sagði áðan, þá er verið að reikna mönnum til tekna hluti, sem eru þeim ýmist litlar eða alls engar tekjur. Það út af fyrir sig er alveg rangt, að skattanefnd hefir leyft sér að meta dagfæði þessara manna á tvær krónur. Þetta er alveg rangt mat, og fá þessir menn ekki að bera hönd fyrir höfuð sér hvað þetta snertir. Þetta er einskonar dómur, og er hér í rann og veru um skattrán að ræða. Ég held þess vegna, að það sé ríkari ástæða til að létta þessu af, þar sem þetta mat til skatts er í flestum tilfellum alveg rangt.

Mér skildist á hv. frsm., að hann væri svo forhertur í þessu máli, að hann vildi ekki ganga inn á neitt samkomulag eða ganga inn á það, að athugað væri um sættir í því til 3. umr. Hann sagði að vísu ekki neitt um það, en mér fannst það á andanum í hans ræðu. En það þykir mér kappgirni í að fyrirfara góðu máli, ef ekki er hægt að ganga inn á að láta málið fara til 3. umr.