02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Hv. 6. þm. Reykv., sem er flm. þessa frv., virðist sækja það af kappi, að það nái fram að ganga. Hann hefir áður hér í hv. d. á þessu þingi risið úr sæti sínu til þess að tala um þetta mál og átelja fjhn. fyrir það, sem hann kallar þrjózku, vegna þess að það hefir dregizt nokkuð að skila áliti í málinu. En það hefir oft áður verið upplýst hér í hv. d., að það stafaði fyrst og fremst af því, að flokksbróðir þessa hv. þm. og formaður flokks hans. hv. þm. G. K., hafði ekki mætt á fundum nokkrum sinnum og því orðið dráttur á afgreiðslu málsins. En það má vel vera, að hv. 6. þm. Reykv. hafi það á tilfinningunni, að það sé ekki gott mál, sem hann er að flytja hér, sem ekki heldur er, og þess vegna þyki honum þörf á að hafa nokkuð hátt um það, ef það eigi að ná að ganga fram.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál, þar sem hv. frsm. meiri hl. n., 4. landsk., hefir fært fram hin fyllstu rök, sem mæla móti því, að þetta frv. nái hér samþ.

Hv. 6. þm Reykv. hélt því fram, að það væri öðru máli að gegna með sjómenn, sem færu frá heimilum sínum til vinnu, heldur en um aðra bæjarmenn eða kauptúnamenn, sem færu til dvalar upp í sveit í kaupavinnu. Hann segir, að fjarvistir þess fólks, sem fer til landbúnaðarstarfa úr bænum, séu skammar, miklu skemmri heldur en þeirra, sem á sjónum eru. Þetta er vitanlega alrangt hjá honum, ef það er borið saman við allan fjöldann af sjómönnum. Hann talaði um, að fólk í sveit hefði margskonar hlunnindi, sem það þyrfti ekki að telja sem tekjur á skattaframtölum. Ég efast um, að hann sé svo kunnugur gangi þessara mála í sveitum, að hann geti haldið þessu fram. Ég vil a. m. k. halda því fram, að þetta sé rangt hjá honum. Ég sé ekki, að það nái nokkurri átt, að mönnum, hvorki sjómönnum eða öðrum, sé ekkert gagn að þeim hlunnindum, sem hér um ræðir, að fá fritt fæði, auk þess kaupgjalds, sem þeir fá fyrir vinnu sína. Þeir myndu finna til þess, ef þeir þyrftu að borga fæði af því kaupi, sem þeir fá. Það benti í þá átt, að hv. flm. málsins sjái, að þetta sé varhugavert eins og hann flytur það, þar sem hann hopaði nokkuð á hæli og sagði, að það gæti komið til mála að undanskilja þá af sjómönnum, sem hafa hæstar tekjur, en hann hefir ekki gefið upplýsingar um það, hvar hann telur, að þau takmörk eigi að vera. Jafnvel þó að það væri gert, sé ég ekki, að það nái nokkurri átt, að það sé rétt, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, að undanþiggja þannig eina stétt manna þeirri skyldu að greiða tekjuskatt af þessum hlunnindum. Það má t. d. benda ;i, að ef þessi hv. þm. hefir vinnukonu á sínu heimili, verður hún að borga skatt af öllu því, sem hún fær í munn og maga hjá honum. Ég efast um, að sú stétt hafi yfirleitt meiri tekjur og sé færari um að greiða skatt til ríkisins en sjómennirnir margir hverjir. Það kom mér mjög einkennilega fyrir sjónir, að hv. þm. Seyðf. skyldi mæla með því, að þetta frv. verði samþ., sem stefnir mjög ákveðið í ranglætisátt. Ég vona, að hv. þdm. sjái sóma sinn í því að fella frv.