05.05.1938
Neðri deild: 62. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2271)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að segja um þetta mál örfá orð áður en það kemur til atkvgr.

Í frv. er farið fram á, að með skattskyldum árstekjum sjómanna verði ekki talin þau hlunnindi, sem þeir hafa af ókeypis fæði um borð í skipunum. En venjan hefir verið sú samkv. gildandi l., að meta fæði til tekna. Ég álít, að það sé ekki rétt að gera þessa breyt. á l., og vildi skora á hv. þm. að fella þetta frv., og það jafnvel þó brtt. á þskj. 432 yrði samþ. Það er vegna þess, að með þessu væri brotin regla, sem er algild í skattalögum okkar. Og ég get ekki séð, að það sé meiri ástæða að sleppa þessum hlunnindum frá skattálagingu heldur en t. d. þeim hlunnindum, sem ýmsir aðrir fá í ókeypis fæði og húsnæði. Vil ég þar til nefna t. d. þá, sem eru í ársvistum í sveit, og ennfremur þá, sem fara í kaupavinnu frá heimilum sínum. Auk þess vil ég benda á, að það yrði hreint ekki svo lítið aukastarf, sem af þessu hlytist fyrir skattanefndir í stærri kaupstöðum. Það yrði ekki lítil aukavinna við þetta t. d. í Reykjavík. Ég veit, að það munu hafa komið fram hér í umr. svipaðar röksemdir og þessar frá andstæðingum frv., en ég vildi þó ekki láta hjá liða að taka þetta fram. Ég sé sem sagt ekkert, sem mæli með að samþ. þetta. Það brýtur í bága við grundvallarákvæði skattalaganna og er ekkert réttlæti í því gagnvart öðrum. sem eins stendur á um. Ég vil þess vegna mælast til, a ð frv. nái ekki fram að ganga.