05.05.1938
Neðri deild: 62. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Sigurður Kristjánsson:

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þau rök, sem hann kom hér með, hafa komið fram áður hér í d. En leiðinlegt er fyrir hæstv. ráðh., að þau hafa verið vegin og léttvæg fundin og eru yfirleitt úr sögunni. Það þarf þess vegna eiginlega nýja menn til þess að bera þau fram aftur, sem ekki hafa hlustað á þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál. Það er hin mesta fjarstæða, sem ráðh. fór með, að hér standi eins á, um þessa menn eins og það fólk, sem er í ársvistum. Það er sá stóri munur þar á, að fólk, sem er í ársvistum, tekur þessi hlunnindi á sínum lögheimilum, en hitt eru menn, sem eiginlega eru dæmdir í útlegð og missa við það skilyrðin til að geta séð sínum heimilum fyrir lífsnauðsynjum.

Þetta var nú orðið nokkuð langt mál, þegar við vorum að ræða um það við 2. umr., og ég vil ekki þreyta hv. þm. með því að endurtaka neitt af því. En ég vil mótmæla því, að þessi breyt. brjóti nokkrar reglur í skattalögum. Í skattalögunum er svo fyrir mælt, að ýms hlunnindi skuli reikna til tekna, en jafnframt stendur þar, að ýms hlunnindi skuli ekki reikna til tekna. Skattalögin eru um þetta einmitt ákaflega óskýr, svo að fjölda úrskurða hefir þurft til þess að skattanefndir vissu. hvernig þær ættu að skilja ýms þessara atriða.

Ég hefi nú gengið mjög langt til þess að fá samkomulag um þetta mál. Veigamesta röksemdin, sem fram hefir komið gegn frv., er án eða sú, að þetta mundi ná til manna, sem ekki hafa þörf fyrir það. Þar sem nú svo er komið fjárhag ríkissjóðs sem vitað er, þá mundi ég vilja ganga inn á það til samkomulags, að þetta næði ekki til annara en þeirra, sem hefðu ekki hærri skaftskyldar tekjur en 2500 kr. Með því móti mundu koma undir frv. yfirleitt þeir hásetar, sem hafa svona frekar lélegar tekjur. Ég held bara, að það komi engir yfirmenn til með að njóta þeirra, nema þeir þá hafi því þyngri fjölskyldur fram að færa. Og hafi þeir slíkan fjölda barna, að þeir nái þessum ákvæðum, er þeim full þörf þess, jafnvel þótt þeir heiti 3. stýrimaður eða vélstjóri og þar af leiðandi teljist til yfirmanna. Það er náttúrlega ekki hægt fyrir mig að miða við annað en skattskyldar tekjur, því að þetta nær ekki til þeirra, sem svo þungar fjölskyldur hafa, að þeir eru skattfrjálsir. Mér virtist andstaða þessi gegn frv. ekki vera ríkari en svo, að þessi meðalvegur, sem ég hefi fundið, mundi verða flestum fullnægjandi. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að einmitt sá maður úr fjhn., sem með þessu frv. mælti, er held ég eini maðurinn í n., sem hefir gagngerðan kunnugleika á útgerðinni og er sjálfur einn af stærstu útgerðarmönnum landsins. Þekkir hann því kjör þessara manna mjög vel. Ég vil jafnvel segja það honum til hróss, að hann er eini maðurinn, sem mætti búast við, að stöðu sinnar vegna þætti óþægilegt að fylgja þessu máli; útgarðarmenn, sem vita, að fæðið á skipunum kostar mjög mikið, verða að reikna mönnum þetta til kaups, og er óþægilegt fyrir þá að hafa úttalað sig um. það, að þetta sé einskis virði. Enda tók minni hl. n. það fram, að hann áliti mennina verða þessara hlunninda vegna dugnaðar síns og mikillar áhættu og óþæginda, sem fylgja þessu starfi.

Ég vænti þess, að ég hafi sýnt svo mikinn samkomulagsvilja í þessu máli, og láti þá hv. þm. það ekki standa í vegi, þótt þeir hafi verið andvígir málinu, en líti á það í þessu miðlunarformi, sem það nú er í, og greiði því atkv.