07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

7. mál, vitabyggingar

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Sjútvn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. með nokkrum breytingum, sem n. í heild hefir gert á frv., og auk þess eru 3 hv. nm. með brtt. á sérstöku þskj. Brtt. sjútvn. eru á þskj. 185, og efni þeirra er þetta:

Við 1. gr., þar sem taldir eru þeir aðiljar, sem eiga að vera ráðunautar ríkisstj. um vitamál, sé bætt, að forseti Fiskifélags Íslands skuli gera till. þær, er þar um getur, ásamt vitamálastjóra, forstöðumanni stýrimannaskólans í Reykjavík og formanni Farmannasambands Íslands. Breytingin frá núgildandi l. er þá aðeins í því fólgin, að formanni Farmannasambands Íslands er bætt þarna inn í. — Brtt. n. við 3. gr. ganga út á það, að felldir séu niður af vitaskránni nokkrir vitar, sem þegar eru byggðir að mestu eða öllu leyti, en að hinsvegar séu teknir upp nokkrir vitar, sem ákveðnir voru með l. frá 1937, en láðst hafði að taka inn í gr. — Í þriðja lagi er tekið fram, að með þessum l. séu úr gildi numin l. nr. 31 1937, með því að þau eru þá runnin inn í þetta frv., ef það verður að l.

Aðrar eru ekki þær brtt., sem n. í heild hefir óskað að gera á frv. En auk þess bera þrír hv. nm. fram brtt. á þskj. 183, þess efnis, að 2. gr. frv. sé niður felld, en þessi 2. gr. er um það, að fellt skuli úr gildandi l. skilyrði það, sem þar er fyrir því, að öllu vitagjaldinu skuli varið til vitamála. Samkvæmi núgildandi l. skal það aðeins gert, „ef ástæður ríkissjóðs leyfa“. Mér sem flm. þótti hér gengið of langt, þegar af tekjuafgangi, sem nemur t. d. 300 þús. kr., er ekki varið nema 60–70 þús. kr. til vitabygginga. Aftur hafa þeir hv. þm., sem vilja fella niður þessa brtt. mína, bent á það, að ríkissjóði kynni að veitast erfitt að sjá sér fyrir tekjum til uppbótar þeim tekjumissi, sem af minni brtt. myndi leiða. Það er rétt, að gera yrði ráðstafanir til að bæta þetta upp. En hinsvegar er það tæplega viðunandi, á meðan vitakerfið er eins gisið og enn er, að svona mikill hluti af þessum tekjum renni beint í ríkissjóð og sé notaður til hluta, sem eru óviðkomandi vitamálunum, en aðeins um 20% sé varið til þess að auka vitakerfið. En þrátt fyrir þetta væri ég til með að ganga inn á miðlunartill., sem gengi t.d. í þá átt, að aldrei skyldi meira en 50% af þessu fé fara til annars en vitabygginga. Getur verið, að ég beri fram till. í þessa átt fyrir 3. umr., sérstaklega ef ég kemst að raun um, að fyrir þessu sé fylgi í hv. d.