07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

7. mál, vitabyggingar

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Ég vil skýra afstöðu mína í hv. n. Ég hefi ekki getað orðið með hv. meiri hl. n. um niðurfellingu á ákvæðinu í 2. gr., vegna þess að ég lít svo á, eins og kom fram í síðustu ræðu hv. 7. landsk., að upprunalega meiningin með vitagjaldinu sé sú, að það eigi að ganga til að efla og endurbæta vitakerfi landsins óskorað. Með ákvæði 8. gr. l. frá 1933 er beinlínis sagt, að verja eigi því til annars. ef ástæður ríkissjóðs leyfa ekki, að því sé varið samkvæmt tilgangi laganna. Þetta er það, sem mér skilst, að flm. frv. hafi ætlað sér að nema burt. Eins og kemur fram á þskj. 183, vill meiri hl. sjútvn. fella þetta niður eða láta l. standa eins og þau nú eru. Þetta finnst mer óþarfi, því að í 3. gr. frv. stendur, að ráðh. láti reisa vita þá, er taldir eru þar á eftir, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Mér finnst hér nægilegur varnagli sleginn, því að þótt taldir séu þar upp 60 vitar, sem vitamálastjóri hefir fallizt á, að þurfi ýmist verulegra endurbóta við og viðbóta, eða að byggja þurfi þar nýja vita, þá er ekki meiningin, að þeir skuli reistir. fyrr en fé er veitt til þess í fjárlögum. þar með er slegið föstu, að ekki verði e. t. v. alltaf notað allt það fé, er vitagjöldin nema árlega. Hinsvegar þarf ekki að auglýsa það til þeirra manna innlendra sem erlendra, er vitagjöldin greiða, að það sé verið að fara kringum lögin. Það þarf ekki að vera að segja þeim, að gjöld þau, er þeir greiða, fari til annars en að viðhalda og auka vitakerfi landsins. Ef auglýsa á með lagasetningu, að taka eigi af þessu fé til annara ríkisþarfa, er hætt við, að það myndi vekja óánægju hjá gjaldendum. Mér finnst þetta ákvæði 3. gr. um, að ráðh. láti byggja vitana, þegar fé er veitt til þess á fjárl., nægilegur varnagli. Ég geri ráð fyrir, að fjvn. Alþ. sé venjulega þannig skipuð, að hún sé í samræmi við ráðandi vald Alþ. á hverjum tíma, og ætti þá að vera fengin þar leið til að gæta hagsmuna ríkissjóðs. Vegna þessa hefi ég ekki getað orðið sammála meiri hl. sjútvn. Að öðru leyfi skal ég ekki fjölyrða um þetta mál frekar.