07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

7. mál, vitabyggingar

*Bergur Jónsson:

Ég var ekki undrandi yfir því, þótt hv. 7. landsk. sem vitamálastjóri legði til í erindi sínu til sjútvn., að vitagjaldið væri allt látið ganga til vitamála. Ég skil, að hann hafi álitið eðlilegast, að hann sem embættismaður gerði það, en ég hélt ekki, að hann myndi sýna það ábyrgðarleysi að halda hinu sama fram hér á hæstv. Alþ. Svo kunnugt er honum um hag ríkisins. Það kemur líka úr hörðustu átt frá honum eða hans flokki að ýta undir, að farið sé óvarlega með fé ríkissjóðs. Ég hélt, að hana myndi sem alþm. taka ábyrgari afstöðu í málinu. Hann sagði, að meginatriði frv. væri kippt burt með brtt. á þskj. 183. Það er rétt, en það meginatriði á að takast burtu.

Hv. þm. Ak. talaði um, að það væri ekki rétt að láta það koma fram í l., að allt vitagjaldið ætti ekki að notast árlega til vitamála. Ég vil benda hv. þm. á, að þótt þetta gjald sé kallað vitagjald, þá er ekki sjálfsagt, að öll upphæðin, sem það nemur, sé nauðsynlegur kostnaður við vitamálin á hverju ári, og hv. vitamálastjóra vil ég benda á það, að á síðasta kjörtímabili hafa stjórnarflokkarnir og ríkisstj. reynt á margvíslegan hátt að veita útgerðinni stuðning. Álítur hv-. þm., að það sé ekki fleira, sem ríkisstj. þarf að gera og gerir fyrir sjávarúfveginn á þessum erfiðleikatímum, en að byggja vita? Mér finnst einkennilegt, hve afstaða hv. 7. landsk. virðist vera ábyrgðarlaus og vanhugsuð í þessu máli. Jafnvel hv. 6. þm. Reykv., flm. þessa frv., viðurkenndi, að ástæða væri til þess nú að taka ekki allt vitagjaldið einungis í þessar framkvæmdir, og stakk upp á, að það væri bundið við 50%.

Ég vona, að hv. 7. landsk. átti sig betur á afstöðu sinni í þessu máli og á því, að sem þm. verður hann að taka ábyrga afstöðu, en má ekki láta löngun sína til að gera stór verk sem vitamálastjóri ráða henni. Afstaða hans sem þm. í ábyrgum stjórnmálaflokki verður að ráða, þar sem hann er einn af þeim þm., sem styðja núverandi ríkisstj. með hlutleysi.