07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

7. mál, vitabyggingar

*Emil Jónsson:

Ég finn ástæðu til að svara þessari ræðu hv. þm. Barð. með nokkrum orðum.

Hann segist geta skilið, að ég sem embættismaður láti í ljós ósk um, að féð skuli notað á þennan hátt, en hann skilji ekki ábyrgðarleysi mitt í því að halda hinu sama fram hér á Alþ. Ég veit ekki, hvernig hann samræmir þetta. Ef það er mín skoðun sem embættismanns, að ríkið eigi og þurfi að byggja þessa vita, þá væri það ábyrgðarleysi af mér að segja það ekki hér á Alþ. Hann sagði, að þessi skoðun mín sýni meira ábyrgðarleysi en það. er hv. 6. þm. Reykv. hefði sýnt. Ég get ekki sagt annað en það, sem ég veit sannast og réttast í málinu. Það þarf að byggja þessa vita vegna öryggis sjófarenda, og það væri ábyrgðarleysi af mér að láta aðra skoðun í ljós en þá, að óska eftir, að þessu fé verði varið til þess. Það væri ábyrgðarleysi að óska ekki eftir, að það verði gert.

Ég sagði, að með brtt. hv. þm. Barð. o. fl. væri meginatriði frv. skorið burt, og hann bar ekki á móti því. Það er verið að leita hér vilja Alþ. um þann varnagla, er í frv. finnst. Ég benti á, að vitagjöldin hefðu upphaflega verið tekin í því augnamiði, að þau stæðu undir þessum framkvæmdum, vitabyggingum og rekstri vitanna. Það hefir aðeins verið hækkað vegna þess, að þörf krafðist. vegna aukinna framkvæmda, þar til 1930, þá fyrst var farið að skoða það sem sérstakan tekjustofn fyrir ríkissjóð. Skattgjald var það fyrst orðið, þegar mikill hluti þess er farinn að renna í ríkissjóð. Þá sagði hv. þm. Barð., að það væri mín löngun til að gera stór verk, er réði afstöðu minni í þessu máli. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt. Auðvitað væri mér ánægja að því að mega framkvæma þessi verk. en grundvöllur minna skoðana er sá, að brýn nauðsyn sé á, að strendur landsins séu upplýstar með vitum, og það sé réttlátt, að vitagjaldið sé ekki notað til annars en þessa máls, meðan vitarnir eru ekki orðnir fleiri og betri.

Hv. þm. spurði, hvort nauðsynlegt væri að kasta þessu fé á hverju ári í vitabyggingar. Já, það er nauðsynlegt að kasta þessu fé og meira til í þessi mál, svo að þau komist í það horf, sem þarf.

Þótt ég viti, að ríkisstj. hefir á ýmsan annan hátt stutt sjávarútveginn, þá vil ég halda því fram, að öryggi sjómannanna sé eitt meginatriðið í þessu sambandi, sem ætti að leysa á undan flestum eða öllum öðrum.

Ég skal ekki eyða orðum frekar að þessu. en undirstrika það, að mér finnst ég hafa verið sjálfum mér samkvæmur í þessu máli og að það hefði verið ábyrgðarleysi að láta aðra skoðun uppi hér á Alþ. en ég gerði við sjútvn.