07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

7. mál, vitabyggingar

Pétur Ottesen:

Ég held ég verði að hætta á það að segja nokkur orð, þótt hv. þm. Barð. kunni e. t. v. að líta svo á, að ég sé nokkuð ábyrgðarlaus í orðum mínum, því að mín skoðun á þessu máli mun koma í bága við það, er hann heldur fram.

Þá er fyrst að viðurkenna, að það er fullkomið hrot á þeirri stefnu, sem vitagjöldin eru byggð á, — brot á þeirri stefnu, sem það er byggt á, að taka skuli gjald af sjófarendum til að byggja vitana með — að frá því skuli hafa verið vikið að nota þetta gjald ekki til annars en vitanna, til þess að vernda líf og eignir manna, líf sjómannanna og eignir og afkomumöguleika þjóðarinnar að því leyti, sem það byggist á siglingum á fiskimið og meðfram ströndum landsins. Það er satt, að þingið hefir undanfarið tekið þátt í því, að þessi regla var brotin. en þeir, er fram hafa komið í þessu máli, viðurkenna, að eigi hafi verið hægt að komast hjá, að svo væri gert. En þó skortir mikið á, að búið sé að lýsa upp hættulegustu siglingaleiðir meðfram ströndum landsins, svo að öruggt megi teljast fyrir sjófarendur að sigla þar. Þannig er t. d. um svæðið frá Akranesi að Öndverðanesi, sem er einhver stærsta líkkista sjófarenda hér við land. Þetta svæði er óupplýst að öðru leyti en því, sem vitarnir á Snæfellsnesi og Akranesi ná til að lýsa, en það eru ekki nema jaðrar þessa svæðis. Verndun öryggis sjófarenda er ekki lengra komið en svo, að svæði sem þetta eru með öllu óupplýst. Það má benda á í þessu sambandi, að það er ekki einasta í sambandi við siglingar meðfram ströndinni, sem þetta svæði er hættulegt, heldur siglir svo að segja allur fiskiflotinn, sem stundar veiðar á norðanverðum Faxaflóa, framhjá þessu svæði, bæði á út- og innleið, svo að ef út af réttri leið ber, t. d. í náttmyrkri eða dimmviðri, þá eru þeir komnir inn í þennan ógurlega skerjagarð. Það er einhver mesta hætta, sem sjófarendur hér við land geta komizt í, að lenda á slíka leið sem leiðina milli Akraness og Snæfellsness.

Vegna slíkra staða, sem enn eru óupplýstir, eru það mestu vandræði að hafa orðið að taka af vitagjöldunum til annara þarfa en þeirra, sem þau lögum samkvæmt ættu að ganga til. Það leiðir af sjálfu sér, að ekki má ráðstafa þessu fé öðruvísi en til var ætlazt í upphafi, nema alveg óhjákvæmilegt sé að grípa til þess til annara hluta, en það má helzt líkja því við það, að stela fé úr eigin hendi, þegar til þess er gripið að nota þetta fé til annars.

Því finnst mér fullkomlega réttmætt að fella úr lögunum um vitabyggingar það, sem felst í 2. gr. frv. á þskj. 7: „ef ástæður ríkissjóðs leyfa“. Ég þykist hafa fært ástæður fyrir því, að það sé ekki einasta rétt, heldur sjálfsagt að búa svo um hnútana, að vitagjaldið sé ekki tekið til annara hluta og varið til allskonar eyðslu, meðan við erum ekki lengra á veg komnir með að lýsa upp siglingaleiðir en ennþá er. Ég get ekki betur séð, en að ákvæði það, er felst í 9. gr. l. og 3. gr. frv., þar sem segir, að byggja eigi þessa vita, sem þar eru taldir upp, þegar fé verði veitt til þess í fjárl., sé fullkomin heimild til að víkja frá þeim grundvallarreglum, sem lögin um vitabyggingar eru reist á, ef það er alveg óhjákvæmilegt. Virðist mér þetta ákvæði hliðstætt þeim ákvæðum í hafnarlögum, er samþ. hafa verið undanfarin ár, þar sem alstaðar er ákveðið, að hafnirnar skuli byggðar, þegar fé verði veitt til þess í fjárl. Er það í fullu samræmi við þessi l., að ákvæðið, sem nú er í 9. gr. 1., sé fellt úr, en ákvæði þessa frv. sett í staðinn. Það er ákveðið, að ríkissjóður skuli leggja fram ákveðnar fjárupphæðir til sumra hafna, sem nema fleiri hundr. þús., en framlögin byggjast á því, að þau skuli veitt úr ríkissjóði eftir ákvörðun í fjárl.

Ég veit, að allir viðurkenna það, að langt er frá, að búið sé að reisa nægilega marga vita hér, og menn ættu að geta fallizt á að opna ekki frekar en gert er í 3. gr. frv. dyrnar að því að nota það fé, sem innheimt er með vitagjaldi, til annars en lög ákveða. Ég vænti, að flm. þeirrar brtt., sem ræðir um niðurfellingu 2. gr. frv., geti fallizt á að láta sama ákvæði gilda hér um framlög ríkissjóðs og er í hafnarlögunum.

Ég vil ljúka máli mínu með því, að ekki eigi að víkja frá þeirri grundvallarreglu, að vitagjöld fari öll til vitabygginga, nema það virðist alveg óhjákvæmilegt vegna fjárhagsafkomu ríkissjóðs eða ef ekki er unnt að kaupa nauðsynlegt efni inn í landið til vitabygginga vegna gjaldeyrisvandræða, enda eiga þeir, sem vitagjöldin greiða, heimtingu á, að þeim sé varið til að fullkomna vitakerfið.