07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

7. mál, vitabyggingar

*Ísleifur Högnason:

Af umr. þeim, sem fram hafa farið um þetta mál, skilst mér, að fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl. séu því meðmæltir, að framvegis verði á fjárlögum áætluð sama upphæð til bygginga og viðhalds vita eins og vitagjöldin gefa af sér í ríkissjóð. Í frv. því til fjárlaga fyrir 1939, sem fyrir þinginu liggur, eru áætlaðar tekjur af vitagjöldum 490 þús. kr., en það, sem áætlað er til viðhalds og bygginga vita, er um 280 þús. kr. Mismunurinn, um 210 þús. kr., er því skattur í ríkissjóð. Eftir því, sem upplýst hefir verið í d., hefir þeirri reglu verið fylgt frá því 1930 að skoða vitagjöldin að nokkru leyti sem toll í ríkiskassann, og nota þau ekki eins og upphaflega var til ætlazt. Hv. þm. Borgf. hefir nú réttilega skýrt frá því, hvernig komið er vitamálunum við Faxaflóa, einkum svæðið frá Akranesi til Snæfellsness. Ég er honum alveg sammála í þessu efni, og það gegnir vissulega viða sama máli og á þessum slóðum, sérstaklega þó við suðurströndina. Það er enginn efi á því, að ef það fé, sem upphaflega var ætlazt til, rynni til þessara mála, nefnilega vitagjöldin, þá væru vitar víða þar, sem nú er mest þörfin fyrir þá.

Ég vil benda á það í sambandi við þetta mál, að Alþfl. og Sjálfstfl. hafa tekið sömu stefnu í þessu máli og við kommúnistar á síðasta þingi, þegar við bárum fram till. um að verja um 200 þús. kr. til nýrra vitabygginga. Þessi till. var þá felld af fulltrúum sömu flokka. Mér er það nú ánægjuefni að heyra, að þessir sömu menn skuli hafa skipt um skoðun á þessu máli, og vil vænta þess, að þeir muni nú ekki hvarfla frá þessari skoðun, þegar til þess kemur að greiða atkv. um fjárlögin, því að þá munum við bera aftur fram þessar brtt. Ég ætla þá að vona, að þeir standi við þessi ummæli sín og samþ. þær brtt.

Hv. þm. Barð. minntist á það ábyrgðarleysi, sem kæmi fram hjá hv. 7. landsk., þar sem hann vildi fara svo gáleysislega með fé ríkissjóðs að verja því til þess að tryggja líf sjómanna. Ég álít, að það megi ávíta þennan hv. þm. ekki einungis fyrir það ábyrgðarleysi, sem fram kemur í sambandi við þetta mál, heldur og í sambandi við annað mál, sem hann er flm. að. sem sé frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar, þar sem gert er ráð fyrir fækkun kunnáttumanna á flotanum. Ég ætla ekki að fara að ræða það mál nú, en bendi aðeins á það til að sýna fram á það ábyrgðarleysi, sem fram kemur hjá þessum hv. þm. í garð sjómannastéttarinnar.