07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

7. mál, vitabyggingar

*Gísli Guðmundsson:

Ég er í þeim hluta sjútvn., sem stendur að þeirri brtt., sem hér er verið að ræða um, og mér þykir rétt að fara um það nokkrum orðum.

Mér þykja um þetta hafa fallið nokkuð stór orð, og ýmislegt af þessu kemur mér undarlega fyrir sjónir, sérstaklega viðkomandi öðrum staðreyndum, sem ég mun ef til vill koma að síðar. Okkur, sem að þessari brtt. stöndum, er það fullljóst, ekki síður en öðrum, að mikil þörf er á því að auka vitakerfi landsins. Það, sem okkur gengur til að flytja þessa brtt., er ekki það, að við sjáum ekki þörfina fyrir að minnka hættur sjófarenda við strendur landsins. Það eru áreiðanlega flestir, sem þar úr vilja bæta, og er óþarfi að vera með gífuryrði í garð einstakra manna í því sambandi. Hitt er annað mál, að þetta hefir staðið svona í l., og við sjáum ekki ástæðu til að breyta því. Það má benda á það með fullum rökum, að ef út í það er farið, þá eru mannslíf náttúrlega í hættu af fleiri ástæðum en vantandi vitum. Menn farast oft af þeim ástæðum, að ekki hefir verið fé fyrir hendi til að gera lendingarbætur, þar sem landtaka er erfið.

Það er ekki af því, að menn hafi ekki viljað koma í veg fyrir slík slys, heldur af því, að fé hefir ekki verið fyrir hendi.

Annars hafa hér fallið ummæli, sem ég tel alveg óviðurkvæmileg, eins og þau, að það, að verja einhverjum hluta vitagjaldsins, eins og stundum hefir verið gert, til annars en beinlínis vitabygginga, væri hliðstætt því að stela úr sjálfs sín hendi. Og í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að ég sé ekki, að í þeim lögum um vitagjald, sem í gildi eru og mér skilst, að séu l. nr. 17 11. júní 1911, séu nein ákvæði um það, að skylt sé að verja þessu vitagjaldi eingöngu til vitabygginga. Lögin eru um það að innheimta gjald, sem heitir vitagjald, og það er ákveðið í 2. gr. þeirra, að það skuli renna í ríkissjóð. Hitt er svo annað mál, að það hefir verið í sambandi við álagningu þessa gjalds talið eðlilegast, að það rynni fyrst og fremst til vitamála. — Ég vildi vekja athygli á þessu, því að hér virðast flestir álíta, að það hafi beinlínis verið ákveðið með lögunum um vitagjald, að gjaldinu skyldi varið á þennan veg.

En svo er annað, sem ég vildi benda á í þessu sambandi. Ég hefi verið að athuga það í þingtíðindunum, hvernig umræður féllu og afstöðu þm. var farið, þegar núgildandi lög um stjórn vitamála og vitabygginga voru samþ. Þessi lög eru frá 1933 og voru borin fram sem stjfrv. af Magnúsi heitnum Guðmundssyni. Það er ekki að sjá sem orðið hafi miklar umr. um það mál, og þetta orðalag, sem nú er í viðkomandi gr., um það, að vitagjaldinu skuli varið árlega nokkurnveginn til bygginga vita, ef ástæður ríkisins leyfa, er borið fram í Ed. 1933 af sjútvn., og hún virðist hafa verið einhuga um að leggja til, að þetta væri orðað þannig. Og þegar málið kemur til Nd., virðist enginn þm. hafa hreyft aths. við því, að þetta væri þannig orðað, ekki einu sinni hv. þm. Borgf. Honum virðist ekki hafa verið ljóst þá, hvílík ósvinna það var að slá þennan varnagla í l. Og ef það var ekki fjarstæða í Nd. 1933 að afgr. lögin einróma með þessu orðalagi, þá get ég ekki séð, að einstakir menn hafi ástæðu til þess nú að rísa upp með einhverskonar hvalablæstri út af því, að meiri hl. n. hefir leyft sér að leggja til, að lögin yrðu óbreytt að þessu leyti til.

Annað er það svo, að fjvn. hefir þetta atriði að miklu leyti í hendi sér. Hún getur varið öllu vitagjaldinu og jafnvel meira til vitamála, ef fjárhagur ríkissjóðs virðist leyfa það. Lögin hindra það ekki á neinn hátt. En ég á erfitt með að skilja þá afstöðu hv. þm. Borgf., sem játar það, að hann hafi ekki sett sig á móti því á erfiðum tímum, að nokkru minna væri varið til vitamála en því, sem vitagjaldinu nam, að hann skuli nú vilja setja það í lögin, sem gerir fyrri afstöðu hans sjálfs að lögbroti.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vísa algerlega heim til föðurhúsanna þeim ummælum, að við berum minni umhyggju fyrir því en aðrir, að hindra mannskaða kringum strendur landsins.