07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

7. mál, vitabyggingar

*Ísleifur Högnason:

Þegar hv. þm. Borgf. hóf mál sitt við þessa umr., fylltist hann miklum eldmóði, er hann fór að lýsa hættunum á siglingaleiðum Borgarfjarðar, og kvað sig eindregið fylgjandi því, að öllu því fé, er inn kemur í ríkissjóð af vitagjaldinu, skuli framvegis varið til þess að stækka vitakerfi landsins og viðhalda þeim vitum, sem fyrir eru. En þegar hann var búinn að ræða þetta nokkuð, hrapaði hann aftur niður úr skýjunum og var kominn á sömu skoðun og hv. flm. brtt. og áleit, að þær kringumstæður gætu verið fyrir hendi, að ekki væri hægt að nota þetta fé til þess að byggja nýja vita.

Hvað viðvíkur afstöðu minni til ríkisstj., vil ég segja hv. þm. það, að hún markaðist af því, að þrátt fyrir allt skvaldur um ríkisstj. sá ég, að það mundu aðeins verða skóbótaskipti, þótt skipt yrði um, því að þeir, sem við völdunum tækju, mundu verða ennþá ósvífnari gagnvart fólkinu í landinu. Þetta var það, sem markaði mína afstöðu, og skal ég ekki fara nánar út í það, enda hefir því verið lýst áður.

En ég vil ítreka það, sem ég sagði áður í umr. um þetta mál, að ég skora á hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl., sem hafa lýst því yfir hér í d., að þeir vilji útvíkka vitakerfi landsins og verja vitagjaldinu til byggingar nýrra vita, að standa við sína afstöðu, þegar fjárlfrv. kemur til umr. og þær brtt., sem við kommúnistar flytjum um þetta efni. Og ég vona, úr því að hv. þm. Borgf. hefir fengið opin augun fyrir því, að fjvn. hafi verið að stela úr sjálfs sín hendi, þá láti hann nú af þeim vana og sjái um, að féð renni þangað, sem upphaflega var ætlað, eða til öryggis sjómanna.