07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

7. mál, vitabyggingar

Pétur Ottesen:

Ég vil út af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um afstöðu mína til lagasetningarinnar um stjórn vitamála og vitabygginga á þingi 1933, segja honum það, að ég hefi alveg gildar ástæður til að líta nokkuð öðruvísi á þetta mál nú heldur en ég gerði þá. Og það er af því, að þá var það ekki komið í ljós, að niðurfelling á fé til verklegra framkvæmda væri látin bitna sérstaklega á einstökum framkvæmdum, eins og nú er komið á daginn. Nú er það komið svo, að niðurfelling á fé til verklegra framkvæmda hefir að mestu verið látin bitna á vitabyggingum. Þetta tel ég, að sé alveg gagnstætt því, sem vera ætti, og þess vegna tel ég, að þeim þingmeirihluta, sem farið hefir með völd á þeim árum, sem liðin eru síðan 1933. sé það hollt og gott að hafa nokkurt frekara aðhald í þessum efnum heldur en verið hefir. Ég held þess vegna, að afstaða mín til þessa máls nú, miðuð við þær staðreyndir, er ég hefi bent á, sé ekki í neinu ósamræmi við afstöðu mína á þinginu 1933 til þessa sama máls, miðað við þá reynslu, sem þá var á undan gengin. — En hinsvegar get ég ekki — eins og hv. 5. landsk. virðist ætla að gera — verið að berja höfðinu við steininn og taka ekkert tillit til þess, þó að ekki sé til neinn gjaldeyrir fyrir efnivöru til nýrra vitabygginga. Það er bezt að láta þennan hv. þm. vera einan um það að berja höfðinu við steininn í þeim efnum.

Og hvað viðvíkur því, sem hann var að tala um, að ég hefði hrapað niður úr skýjunum, þá held ég nú, að kominn væri tími til þess fyrir þennan hv. þm. og aðra kommúnista, sem alltaf eru uppi í skýjunum, að tylla einhverntíma tánum niður á jörðina. — Eins er það, hvað viðvíkur því, sem þessi sami hv. þm. var að tala um „skvaldur“, að hann ætti að minnast þess, að ekki má nefna snöru í hengds manns húsi. Hverjir eru það, sem skvaldra mest?

Annars vil ég segja það út af orðum hv. þm. Barð., að mér þótti það kaldlega mælt af honum, þegar hann var að tala um, að ekkert væri við það að athuga, þótt ekki hefði öllu því fé, sem fengizt hefir með vitagjaldinu, verið „kastað“ í vitabyggingar, eins og hann komst að orði. Mér finnst ekki í þessu lýsa sér nægilega mikil tilfinning fyrir því, að við skulum hafa þurft. vegna yfirstandandi erfiðleika, að víkja frá þeirri reglu, að verja vitagjaldinu til þessara nauðsynlegu hluta. Það ætti vitanlega að vera ærið tilfinningamál fyrir hvern mann að þurfa að beygja sig fyrir þeim harkalegu staðreyndum, að við skulum neyddir til þess að taka af þessu fé, sem á að verja til þess að vernda líf sjófarendanna, til annara óskyldra hluta.

Ég vil svo í lok míns máls benda á, að það virðist ekki horfa mjög vænlega, ekki einungis að því er snertir byggingu nýrra vita, heldur einnig í því efni að nota þá vita, sem fyrir eru. Eftir þeim upplýsingum, sem fjvn. hefir frá vitamálastjóra, þá hefir hann ekki fengið yfirfært einn eyri af því fé, sem hann skuldar erlendis fyrir nauðsynlegum áhöldum til rekstrar vita á árinu, sem leið, og bjóst hann jafnvel við, að ef ekki úr rættist í þessu efni, þá gæti rekið að því, að hann fengi ekki flutt inn nauðsynlegustu áhöld og tæki, til þess að hægt væri að láta lifa á vitunum.

Þetta er þá viðhorfið, að því er snertir þetta mál. Og vildi ég um leið nota tækifærið til þess að vekja athygli valdhafanna, sem nú eru nýbúnir að fá samþ. traust, á því, hvort ekki væri hægt að takmarka gjaldeyri til þess að flytja inn tóbak og brennivín, og þar með stilla svo til, að ekki þurfi að slokkna á vitunum meðfram ströndum þessa lands. — Það er líka vert fyrir þá, sem eru í núllinu í sambandi við atkvgr. um ríkisstj., að athuga þetta, sérstaklega þar sem þeir eru að velta vöngum og renna hýru auga til þessarar stj., sem nú er, annarsvegar, jafnframt því sem þeir eru að gjóta hornauga til almennings og vara hann við þeirri hættu, sem af stj. standi. Það væri vert fyrir þá að athuga þetta, og hvort þeir ættu ekki að vera öðruhvoru megin við núllið, heldur en að standa inni í því.