07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

7. mál, vitabyggingar

Pétur Ottesen:

Hv. þm. Ísaf. vil ég aðeins segja það, að að því leyti sem hann talaði um, hvernig komið væri með vitaféð síðan 1930, þá var það svo, þegar þessi l. voru samþ., árið 1933, að þá var á þriðja hundr. þús. kr., sem runnið hafði í ríkissjóð af vitafénu. En nú er það orðið upp undir 1 millj. kr., m. ö. o., á því tímabili, þegar hv. þm. Ísaf. hefir stutt ríkisstj., er þetta komið upp undir 700 þús. kr., vitaféð, sem runnið hefir til ýmissa fyrirtækja annara heldur en vitabygginga.

Þessi hv. þm. þykist vera ákaflega mikill verndari sjávarútvegsins og annað slíkt. En það hefir alltaf fylgt því, sem hann hefir gert í þeim málum, að hann hefir notað framkvæmdir í sjávarútvegsmálum til skálkaskjóls fyrir það að geta ýtt sjálfum sér inn í stöður og útvegað sjálfum sér stöður og bitlinga í sambandi við það. Á því sviði, að vinna fyrir sjávarútveginn, hefir áhugi þessa hv. þm. alveg sérstaklega beinzt að því, að hlaða undir sjálfan sig. Þar, sem hann hefir ekki sérstakan ágóða af málum, hefir hann ýmist dragnazt með eða spyrnzt á móti þeim eftir getu. En þetta hefir setið í fyrirrúmi hjá honum, að gagna bezt sjálfum sér. En nú er það svo, að vitamálin hefir hann ekki getað notað sér sérstaklega til framdráttar. Þess vegna hefir áhugi hans á þessu sviði ekki verið neitt mikill. Hann hefir hreint og beint verið argasti dragbitur í þeim málum. En hann hefir áhuga á síldarútvegs- og síldarverksmiðjumálum, sem náttúrlega ríður mikið á fyrir landsfólkið, að vel takist um framkvæmdir á. Þar hefir hann verið ákaflega áhugasamur og troðið sjálfum sér að, en ekki til gagns fyrir landsfólkið, heldur hefir hann verið svo mikill óhappamaður í þeim málum, að þar, sem hann hefir komið nærri, hefir allt farið á miklu verri veg en farið hefði í höndum allra annara manna. (Forseti: Ég vil beina því til hv. þm. Borgf. að blanda ekki öðrum málum inn í umr. um þetta mál). Hv. þm. Ísaf. gefur fullkomið tilefni til þess. — Ég get minnzt á síldarþróna nýju á Siglufirði, sem hann lét byggja fyrir kvart millj. kr. Það er sagt, að það megi kannske nota efri hæðina til þess að geyma í henni síld, og svo ekki meira af þrónni til þess. En ég vildi þá benda á, að það væri ekki óviðeigandi að nota þá neðri hæðina til þess að geyma í henni þennan hv. þm.