07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

7. mál, vitabyggingar

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil aðeins í stuttu máli gera grein fyrir atkv. mínu viðvíkjandi brtt. við 2. gr.

Frá því er ég kom fyrst á þing, þá hefir, þegar þessi mál hafa verið rædd, Alþfl. staðið fast á því, að vitagjöldin ættu að ganga til vitabygginga. Á móti þessu hafa svo staðið sjálfstæðismenn. En það er gott að heyra, að þeir nú eru komnir á þessa sömu skoðun og Alþfl. hefir haft um þessi mál. Ég mun halda áfram þeirri stefnu minni og greiða atkv. móti þessari brtt. við 2. gr. frv. Að þetta sé tekið aftur með 3. gr. get ég a. n. l. viðurkennt, því að vitanlega er ekki hægt að reisa vita, nema fé sé veitt til þess á fjárl. En eftir 2. gr., ef hún verður samþ. óbreytt, á að verja sem næst þeirri upphæð sem vitagjaldinu nemur á hverjum tíma til vitabygginga. Það kann að vera, að það þyki eitthvað meiri nauðsyn að taka þessar 1–2 hundr. þús. kr. og ákveða þær til annars á fjárl. En það eru ekki meiri en aðrar breyt. á fjárl., þegar fé er tekið frá einu framkvæmdafyrirtæki ríkissjóðs og fært yfir til annars.

Það er mjög mikil þörf á að hækka vitabyggingaféð, þó að margt sé aðkallandi. Ég legg áherzlu á, að vitagjöldin öll gangi til vitabygginga. Því skipulagi hafa Englendingar komið fyrst á hjá sér, og þeir hafa hvað eftir annað gert fyrirspurnir um það, hvort það verði ekki haft eins hér hjá okkur.