09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

7. mál, vitabyggingar

*Emil Jónsson:

Við 2. umr. minntist ég á það, að fallið mundi hafa niður úr frv. viti á Straumnesi við Skagafjörð, og ber nú fram brtt. á þskj. 207 um að lagfæra það. Ég fór um þetta nokkrum orðum við 2. umr. og tel mig ekki þurfa að gera það frekar.

Ég gæti látið útrætt um málið fyrir mitt leyti, en vil þó minnast á sjónarmið hv. þm. Mýr. og nokkurra annara þm., að það sé hættulegt að lögfesta, að öllu vitagjaldinu skuli verja til vitamála, því að ómögulegt sé að framfylgja því. — Það er ekkert auðveldara en að færa nokkuð af því fé milli ára, þegar nauðsyn krefur, en láta það þó ekki ganga óafturkallanlega inn í ríkissjóðinn. Þannig var þetta framkvæmt til 1933, þegar núgildandi lög voru samin. En þá hafði að vísu safnazt nokkuð fyrir um tveggja ára skeið. Þetta er því engin mótbára, þó að ekki verði hægt að nota féð allt á hverjum tíma. En þessi útgjöld útgerðarinnar eiga óumdeilanlega að ganga til umbóta á vitakerfinu. (BÁ: Hvað má ganga langt í að færa milli ára?). Það gæti þingið ákveðið.