21.02.1938
Neðri deild: 5. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

8. mál, greiðsla verkkaups

*Flm. (Ísleifur Högnason):

Þetta frv. okkar hv. 5. þm. Reykv. var flutt af mér á siðara þinginu 1937. Læt ég mér að mestu nægja að vísa til þess, sem ég sagði þá um þau vansmíði, sem eru á gildandi l., þannig að atvinnurekendur geta skotið sér undir viss ákvæði þeirra og, ef þeim býður svo við að horfa, knúið verkamenn til að taka á móti vörum upp í kaup, eða tekið vinnulaun þeirra upp í skuldir. Þetta fer nú mjög í vöxt, ekki aðeins hjá einstökum atvinnurekendum, heldur einnig hjá bæjarstjórnum, sem farnar eru að greiða kaup í vörum, eins og t. d. bæjarstjórn Vestmannaeyja. Eftir að þetta mál var lagt hér fram í fyrra, bárust Alþingi áskoranir frá Vestmannaeyjum og Hafnarfirði um að samþ. frv., svo að ég veit, að þetta er aðkallandi mál víðar en í Vestmannaeyjum, a. m. k. í Hafnarfirði. Væri fróðlegt að heyra álit hv. 7. landsk. um það, hvort verkalýðsfélögin í Hafnarfirði hafi ekki tekið þetta mál upp hjá sér, án þess að við kommúnistar höfum haft nokkur áhrif á þau í þá átt. Í fleiri þorpum landsins mun vera líkt ástatt. Ættu að vera fleiri hv. þm. hér í d., sem hefðu áhuga á þessu máli.

Þetta frv. er nokkru fyllra en áður var. Við leggjum nú til, að orðin „nema öðruvísi sé um samið“ í niðurlagi fyrri málsgr. 2. gr. falli niður, en þar er um að ræða undantekningu frá vikulegri kaupgreiðslu ákveðins flokks verkafólks. Við teljum það óhæfu, að þessi kaupgreiðsla geti dregizt lengur en viku.

Ég vona svo, að n. sú, sem fær málið til meðferðar, líklega hv. allshn., sýni þá rögg af sér að afgr. það til 2. umr., svo að hægt sé að heyra undirtektir hv. þm.