24.02.1938
Neðri deild: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

16. mál, vinnudeilur

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hefi áður lýst afstöðu minni til þessa frv., sem hér liggur fyrir, og hefi í engu breytt henni. Ég tel, að frv. þetta, eins og það nú er borið fram í fjórða sinn, nái ekki nokkurri átt, fyrir hæstv. Alþ. samþ. Ég get verið samþykkur hv. flm. frv. um það, að mikill hluti verkalýðsins í landinu sé því samþykkur, að sett sé sanngjörn vinnulöggjöf. En ég er jafnviss um hitt, að svo að segja allur verkalýðurinu hér á landi er andvígur frv. því, sem hér er um að ræða.

Ég hirði ekki um að fara út í einstakar gr. frv., því að frv. verður án efa til umr. síðar. En eins og hv. þm. er öllum kunnugt og hv. flm. drap á í ræðu sinni, hefir verið útbýtt meðal þm. nál. frá n. þeirri, sem atvm.ráðuneytið skipaði í desember 1936 til að athuga þetta mál. Þetta nál. liggur nú fyrir til athugunar fyrir alla hv. þm. Þetta frv. var nokkru áður sent til Alþýðusambands Íslands með tilmælum um að senda það út til verklýðsfélaganna í landinu og fá álit þeirra um það. Það hefir Alþýðusambandið gert og óskað eftir svörum fyrir 1.í. marz n. k. Ég geri ráð fyrir, að þá sjáist, á hvern hátt frv. verður lagt hér fyrir þingið, því að ég geri ráð fyrir, að það verði lagt fyrir þingið af einum eða öðrum. — Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, hefir líka, samkv. grg., verið sent Alþýðusambandi Íslands og það beðið umsagnar um það. En sú umsögn hefir ekki heldur komið. Vildi ég því mælast til þess við n., sem fær þetta mál til meðferðar, að afgr. ekki málið frá n., fyrr en sýnt er, hvernig tekið verður skýrslu og till. n., sem ég gat um og ég geri ráð fyrir, að verði séðar fyrir 15. marz n. k.

Hv. frsm. kom með nokkrar fullyrðingar í ræðu sinni, sem ég vil mótmæla. Hann sagði, að verkamannafélagið Dagsbrún hefði tekið upp í sína samninga á síðasta sumri, að jafnan skyldi frestað um 7 daga vinnustöðvun. Þetta er rangt. Þetta ákvæði er bundið við það eitt, er vinnustöðvun rís út af skilningi á samningum milli vinnuveitenda og verkamanna. (TT: Ég sagði: Út af réttarágreiningi). Þá hefi ég misskilið hv. þm. En umrædd gr. þessa samnings hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rísi ágreiningur út af samningi þessum eða einstökum atriðum hans eða annarhvor aðilja telur hann brotinn á sér, skal leggja allan slíkan ágreining eða meint brot á samningnum fyrir sáttanefnd, sem þannig sé skipuð, að hvor aðili tilnefni einn aðalmann og annan til vara. Skulu þeir rannsaka ágreiningsatriðin og ráða þeim til lykta, ef unnt er. Hafi menn þessir ekki lokið starfi sínu innan þriggja daga frá því, er þeir hafa verið kvaddir til starfa, ber nefndarmönnum að snúa sér til lögmannsins í Reykjavík, sem þá útnefnir þriðja manninn í nefndina, sem reynir ásamt hinum að jafna deiluatriðin. Skal nefndin hafa lokið störfum sínum innan þriggja daga frá því, er þriðji maður var skipaður. Vinnustöðvun skal óheimil út af slíkum ágreiningi, fyrr en viku eftir að sáttastarf hófst“.

Sá frestur, sem hér er um að ræða og tekinn er fram í þessari gr., miðast eingöngu við það atriði, sem ég nefndi. (TT: Eins og í frv. okkar).

Hv. þm. fullyrti, að ef til væri löggjöf hér á landi, svipuð að formi, að mér skildist, þessu frv., þá hefði alls ekki komið til þeirrar vinnustöðvunar, sem nú er hafin við togarana hér í bænum. Þetta veit hv. þm., að er rangt. Í því frv., sem hann ber hér fram, eru engin ákvæði, sem geta komið í veg fyrir slíka árekstra sem þar er um að ræða. Þar er ágreiningur um kaup og kjör. Og hv. flm. viðurkennir sjálfur, að það sé ekki tilætlunin með frv. hans nú, að vinnudómstóli eigi að ákveða, hvaða kaup verkamenn og sjómenn fái, þó að slíkt hafi reyndar verið í frv. hans flokksmanna fyrir nokkrum árum. Þessum samningi, sem gerður var milli sjómanna og útgerðarmanna, var sagt upp a. m. k. þrem mánuðum fyrir áramót. Allan þann tíma og fram að þessu hafa útgerðarmenn ekki fengizt til að segja, hvaða kjör þeir byðu sjómönnum. Sjómenn höfðu þegar fyrir áramót sett fram sínar kröfur. Svör útgerðarmanna við þeim hafa mér vitanlega ekki fengizt enn né nein gagnboð á móti þessum kröfum. Hvaða ákvæði eru nú í þessu frv. sett undir slíkan leka sem þennan? Ég sé ekki, að ákvæði þess geti á nokkurn hátt afstýrt slíkum deilum, sem hér er um að ræða. Í frv. eru aðeins ákvæði um það, hvernig skuli taka upp vinnustöðvun, verksviptingu af hálfu vinnuveitanda eða verkfall af hálfu verkamanna, en ekkert ákvæði, sem geti breytt nokkru í þeirri deilu, sem hér er um að ræða.