24.02.1938
Neðri deild: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

16. mál, vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti ! Það er rétt hjá hv. flm. þessa frv., að það er í fjórða sinn, sem þetta frv. um vinnulöggjöf er flutt á þingi. Það er ennfremur rétt bjá þessum hv. þm., að öllum hv. þm. er fullkunnugt um innihald þessa frv. Og einmitt vegna þess, að öllum hv. þdm. er fullkunnugt um það, hefir frv. aldrei í þessi þrjú skipti komizt nema til 1. umr. og n., og mun heldur ekki fara lengra í þetta sinn. Enda er ekki von til þess.

Við síðustu umr. um þetta mál hér í hv. d. ræddumst við hv. flm. allýtarlega við um efni frv. Ég ætla ekki að endurtaka sérstaklega nú það, sem ég þá sagði um það. Nóg er að minna á, að þetta frv., ef að l. verður, er stórkostleg skerðing á rétti verkamanna til að selja sína vinnu og ráða sjálfir sínu vinnuafli, þannig að einum verkamanni er fyrirskipað að leggja ekki niður vinnu, þegar honum þóknast, heldur á hann, eftir frv., að fara eftir ákvæðum annara aðilja í slíku sambandi. Það er fyrirskipað, að ef verkamenn í einu félagi hafa ákveðið að hætta vinnu, megi þeir ekki gera það fyrr en eftir svo eða svo langan tíma. Verkamenn eru í slíku tilfelli ekki sjálfum sér ráðandi, heldur verða, hvað sitt vinnuafl snertir, að hlíta ákvæðum sérstakra l., sem rannverulega gera þá þannig að þrælum. Það er þetta „prinsipatriði“ í þessu frv., sem við sósiallstar mótmælum. Það er á móti frelsi því, sem menn eiga að njóta í þessu þjóðfélagi. Það er frelsisskerðing, þótt fresturinn sé ekki meiri en 4, 10 eða 14 dagar.

Þá er hér og brotið í bág við allt lýðræði, sem yfirleitt gildir innan þjóðfélagsins, þar sem atkvæðisréttur í sambandi við miðlunartill. sáttasemjara er ákveðinn eins og gert er í 21. gr. frv., sem hv. þm. er fullkunnugt um. Þar stendur m. a., að hafi færri en 25% atkvæðisbærra félagsmanna greitt atkvæði, þá teljist sáttatillaga samþ. Þannig getur sáttatillaga náð samþ., þó að allir félagsmenn séu á móti henni. Það er því hægt með þessum l. að þvinga verkamenu til þess að ganga að samningum, sem allir verkamenn eru á móti. Það er hægt fyrir atvinnurekendur að hafa áhrif á það, að verkamenn fari ekki til þess að greiða atkv., og reyna þannig að stemma stigu fyrir og hindra aðsókn verkamanna til þess að greiða atkv., svo mörg sem þyrfti til þess, að atkvgr. væri gild eftir þessu frv. Hvernig hér er brotið í bág við lýðræðislegan rétt verkamanna, verður áberandi, þegar þess er gætt, hvernig farið er með atvinnurekendur í þessu sambandi. Það er talað með fjálgleik um það af hálfu sjálfstæðismanna, að atvinnurekendum og verkamönnum sé í þessu frv. gert jafnt undir höfði. En ég vil þá spyrja: Hvar er réttur atvinnurekenda til þess að stöðva atvinnufyrirtækin takmarkaður í þessu frv.? Hver einasti atvinnurekandi hefði, þó að frv. þetta yrði samþ., fullan rétt til þess, hvenær sem hann vill, að stöðva sína útgerð, verksmiðju eða annað framleiðslutæki. Hann hefir rétt eigandans yfir þessum tækjum og getur stöðvað þau, þegar honum þóknast. Hann þarf ekki að kalla það „lockout“ eða verksviptingu. Ef vinstri stjórn er við völd, sem m. a. ætti að sjá um stjórn gjaldeyrismála, sem stendur í nánu sambandi við framleiðsluvörur stórútgerðarmanna, framleiðslu þeirra og sölu, og þessum íhaldsmönnum, sem útgerðina hafa á hendi, þætti gott, að stjórnin hefði sem minnstum gjaldeyri yfir að ráða, þá gætu þeir stöðvað öll sín framleiðslutæki til þess að láta það verða þjóðfélaginu og stj. að tjóni, án þess að það kæmi neitt í bága við ákvæði þessa frv. Það eru heldur engin takmörk í frv. sett fyrir því, hve mikið eyðileggingarstarf er hægt að vinna með slíkri vinnustöðvun. T. d. má taka vorið 1936 um það, hvernig togaraeigendurnir geta hagað sér undir slíkum kringumstæðum, ef þeim af pólitískum ástæðum býður svo við að horfa. Þetta frv., þó að l. yrði, mundi ekki setja nein ákvæði gegn því. Það er því ekki nema leikaraskapur að segja, að hér í þessu frv. séu vinnuveitendur og verkalýður jafnréttháir aðiljar, þar sem atvinnurekendur hafa ráð verkamannanna í hendi sér með fyrirtækjunum og líka ríkisvaldið og ríkisstj. með því afli, sem felst í auðnum og ótakmörkuðum rétti til að stjórna framleiðslutækjunum.

Annars er dálítið skemmtilegt að sjá, í sambandi við þetta frv., hvernig sjálfstæðismenn smávitkast og verða að viðurkenna staðreyndir. Það eru líklega ekki nema 10 eða 12 ár síðan þeir sögðu, að hér á Íslandi væri ekkert auðvald til og engin fátækt, og auðvaldsskipulag því ekki til hér heldur. En nú er í grg. þessa frv. af flm. þess gerð að sumu leyti nokkuð rækileg grein fyrir því, hvernig stéttaskiptingin hefir skapazt hér, því að hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Stéttaskipting hefst í þjóðfélaginu. Aðiljar framleiðslunnar verða tveir, annarsvegar atvinnurekendurnir, er ráða yfir framleiðslutækjunum, hinsvegar verkamennirnir, er lifa á vinnu sinni. Og hér á landi, eins og um gervallan heim, skapast hagsmunaágreiningur milli þessara aðilja“.

O. s. frv. — Þessir hv. flm. frv. verða að viðurkenna, að það, sem gerzt hefir hér á landi upp á síðkastið, sé, að auðvald hafi skapazt, að stéttaskipting hafi komið hér upp milli auðmanna og verkamanna, og meira að segja skilgreina, hvernig auðvaldið hafi ráðið yfir framleiðslutækjunum og að verkamennirnir hafi ekkert annað af að lifa nema vinnu sínu. Þannig viðurkenna þessir hv. flm., að eingöngu í þjóðfélagi, þar sem fáir menn einir geta ráðið yfir framleiðslutækjunum og meginhluti fólksins verður að lifa af því að selja vinnu sína, er stéttabarátta hugsanleg. Í skipulagi, þar sem verkamenn ráða framleiðslutækjunum sjálfir, þar eru allar þessar forsendur, sem skapa slíka stéttabaráttu, brott fallnar. Þess vegna er einkennilegt að heyra hv. flm. frv. tala um sovétríkin í sambandi við þetta mál, þar sem verkamenn sjálfir hafa ríkisvaldið í höndum sér og þar sem stéttabaráttan þess vegna er búin að vera og verkamenn hafa framleiðslutækin í sínum höndum.

Svo vil ég lítið eitt koma inn á ýmislegt það, sem hv. flm. kom inn á sem nýjar röksemdir, sem hann vildi færa fyrir sínu máli. Hann sagði, að á Norðurlöndum væru allir flokkar sammála um vinnulöggjöf. Þetta er algerlega rangt. Kommúnistar eru allir á móti henni, og sósialdemókratar eru meira og minna á móti þeirri vinnulöggjöf, sem foringjar sósíaldemókrata í Danmörku hafa komið á. Meira að segja með því að kynna sér þær bækur, sem sósíaldemókratar gefa út til þess að kenna á sínum flokksskólum, má sjá, hvernig andinn er í meginþorra hinna dönsku sósíaldemókrata gagnvart þessari „septembersætt“. Hún er alræmd meðal hinna dönsku verkamanna. Í Noregi er það þannig, að verklýðsfélögin hafa brotið á bak aftur kúgunarlöggjöf þar. Það er því ekki til neins að vitna í Norðurlönd í því augnamiði, að koma hér á óvinsælli vinnulöggjöf.

Í sambandi við þá fullyrðingu hv. flm., að togararnir mundu ekki liggja nú í höfn hér í Reykjavík, ef vinnulöggjöf hefði verið til hér, vil ég beina spurningu til hans: Hvernig stendur á því. að togaraeigendur hér í Reykjavík láta ekki reka ufsaveiðar? Vinnulöggjöf hefði ekkert með það mál haft að gera. Þar eru til samningar milli útgerðarmanna og verkamanna. En þar er einfaldlega bannað af togaraeigendum og útgerðarmönnum að láta togarana fara á veiðar. Er þetta gert til þess að forða þjóðinni frá fjóni? Veldur því eitthvað, sem vinnulöggjöf átti að lagfæra og bjarga við, ef hún hefði verið komin á? Það er bezt fyrir þá háu herra frá Sjálfstfl. að upplýsa þetta, þegar þeir tala af miklum móði um vinnustöðvun og annað í því sambandi. Nei, það sést bezt á stöðvun ufsaveiðanna nú, að það er eitt, sem sjálfstæðismönnum gengur til. — það er að reyna að kúga verkalýðinn til undirgefni, af því að verkalýðurinn hefir ekkert af að lífa nema sína vinnu, þar sem atvinnurekendurnir geta sjálfir lifað góðu lífi, á meðan á vinnustöðvuninni stendur, á því, sem þeir eru búnir að græða af öðrum. Hér er um ólíkt að ræða. Verkalýðurinn leggur ekki út í verkföll, nema sem vörn gegn kúgun, þar sem vinnuveitendur nota vinnustöðvun til þess að kúga, ekki einasta fjárhagslega, heldur einnig pólitískt. Það er bezt fyrir þessa menn að upplýsa fyrir hv. þm. og sjómönnum, hvernig á því stendur, að togararnir fá ekki að fara á ufsaveiðar.

Þá kemur hv. flm. með fullyrðingu um það, að af miklum hluta verkamanna sé óskað eftir vinnulöggjöf. Hvaða stafi hefir hann fyrir sér í þessu? Getur hann bent á eitt verklýðsfélag á landinu, sem óskað hefir eftir, að vinnulöggjöf verði sett á slík sem þessi? Öll verklýðsfélög, sem tekið hafa frv. þetta til meðferðar, hafa mótmælt því. Við þm. þeirra hér á Alþ. endurtökum bara þessi mótmæli í nafni verkalýðsstéttarinnar. Það er hreinn misskilningur, sem oft hefir áður komið fram hjá þessum hv. þm. og samflokksmönnum hans, að við kommúnistar séum að æsa verkamenn upp á móti þessu fyrirmyndar frv. þeirra. Það þarf sannarlega ekki að æsa þá upp á móti því; þeir eru á móti því. Þeir verkamenn, sem finna til gildis sins og sinnar stéttar í þjóðfélaginu og kunna að meta það frelsi, sem þeir með sínum samtökum hafa áunnið sér, eru auðvitað á móti því, að þetta frelsi sé skert. Það þarf enga æsingamenn til þess að segja þeim það. Þessi hv. þm. virðist því hafa nokkuð barnalegar hugmyndir um verkamenn, meginhluta hinnar íslenzku þjóðar. Þeir eru sannarlega sjálfstæðir menn, sem þora að hafa sínar skoðanir og eru reiðubúnir til að verja sitt frelsi gagnvart þeim mönnum, sem sækjast eftir að ræna þá því.

Í þessu sambandi vil ég spyrja hv. flm. þessa máls að því, hvort það sé meiningin að framkvæma þessa vinnulöggjöf á móti vilja verkalýðsfélaganna í landinu? Sjálfstfl. hefir upp á síðkastið alltaf gengið lengra og lengra í því að þykjast sérstaklega vera flokkur verkamannanna. Eg man ekki betur en að einmitt hv. þm. Snæf. hafi sjálfur á fundi sjálfstæðismanna inni á Eiði sagt, að nú yrðu það þeir sjálfstæðismenn, sem færu að taka upp söng verkamanna: „Sjá roðann í austri“ — og kyrja: „Þeir skammta okkur frelsi, þeir skammta okkur brauð“. Og ég man ekki betur en að þessi ræða væri prentuð í Morgunblaðinu. Ég vil nú spyrja þennan „verkamannaleiðtoga“, hvort hann ætli að framkvæma vinnulöggjöf þessa á móti vilja sinna kæru félaga, — meðan hann fær ekki eitt einasta verkalýðsfélag á landinu til að samþykkja eitt einasta atriði í vinnulöggjöfinni. Ef svo er, þá væri það auðséð, að tilgangur sjálfstæðismanna með því að flytja þetta frv. væri eingöngu sá, að setja lög til þess að kúga verkamannastéttina í nafni atvinnurekenda.

Þá sagði hv. þm. Snæf. í lok sinnar ræðu, að það lægi alveg sérstaklega á nú, að frv. þetta yrði að lögum. Nú langar míg til að biðja þennan hv. þm. að vera einu sinni hreinskilinn og segja, hvers vegna á því liggi alveg sérstaklega núna. Sjálfstæðismenn eru nú búnir að vera að myndast við þetta í ein 10 ár, að koma á vinnulöggjöf. En af hverju leggja þeir alveg sérstaka áherzlu á það einmitt þessa mánuðina? Ég vildi gjarnan spyrja þennan hv. þm. að því, hvort það standi ekki eitthvað í sambandi við það, að togaraútgerðarmenn eru nú að bera fram kröfur um gengislækkun og heimta, að stórútgerðarmenn fái yfirráð yfir gjaldeyrinum. Atvinnurekendur ógna með sínu eignarvaldi yfir togurunum, til þess að knýja það fram, að þeim verði afhentur gjaldeyririnn, og þegar það væri búið, væri náttúrlega meiningin að lækka gengið. Er það þess vegna, sem sjálfstæðismenn leggja svona mikið upp úr því, að koma vinnulöggjöfinni í gegn einmitt nú?

Það er eftirtektarvert, að sjálfstæðismenn ganga stundum svo langt í þessu sambandi, að þeir þykjast vilja koma á þessari vinnulöggjöf til þess að vernda verkamenn, líklega gegn ofstopa og æsingamönnum. En ég vil benda þeim á, að áður en þeir þættust fara að setja löggjöf til verndar verkalýðnum, ættu þeir fyrst að sýna vilja sinn í því að endurbæta og framkvæma eitthvað af þeim lögum, sem sett hafa verið honum til hagsbóta, sjá t. d. um það, að lögin um kjallaraíbúðir fengju framkvæmd. Síðan þau lög voru sett, hafa kjallaraíbúðirnar í Reykjavík þrefaldazt undir stjórn Íhaldsins. Sama máli gegnir um lögin um verkamannabústaði og fleiri, sem sett hafa verið til verndar verkalýðnum, en svikin í framkvæmdinni.

Þetta frv. mun því eins og áður mæta einróma mótspyrnu verkamannastéttarinnar. — Og ég mun taka sömu afstöðu til þess og í fyrra og vera á móti því til 2. umr. og n.