24.02.1938
Neðri deild: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2331)

16. mál, vinnudeilur

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér kemur ekkert á óvart, þótt hv. þm. Snæf. sé dálítið úfinn í skapi út af því, hvað ég sé „mjög sitjandi“ í ráðherrastóli. Mér er vel kunnugt um það, að hann og hans flokksbræður langar mjög til, að skipt sé um, svo einhver þeirra fengi að setjast í þennan stól í minn stað. Ég vænti þess, að hv. þm. afsaki, þótt ég leiti ekki fyrst og fremst til hans eða hans jábræðra eða taki tillit til hans óska, þegar ég ákveð, hvað lengi ég sit í þessum stóli, að svo miklu leyti, sem ég get ákveðið það. En ég skal láta þetta nægja um þetta atriði.

Niðurlagið á ræðu hv. þm. var mér næsta torskilið. Hann sagði í tilefni af ummælum hv. 5. þm. Reykv., að þetta snerti mál eins og gengismálið ekki nokkurn skapaðan hlut, því að þetta frv. fjallaði ekki um hagsmunaágreining. Þetta er rangt. Það fjallar um það, að því leyti, sem það fjallar nm, hvernig deilur um hagsmuni skuli reknar. Og þetta skiptir mjög miklu máli. Væru t. d. gerðir bindandi samningar í 1–2–3 ár, og síðan sett á gengislækkun, þá er ekki gert ráð fyrir því í frv., að breyt. verði á, heldur séu menn bundnir við samningana. Að þessu leyti er þetta stórt atriði í sambandi við þetta frv., ekki sízt þar sem eru einmitt frá hans flokki og hans stéttarbræðrum uppi jafnákveðnar kröfur um gengislækkun eins og hafa verið upp á síðkastið.

Ég skal ekki blanda mér í kappræður þeirra hv. þm. Snæf. og hv. 5. þm. Reykv. Það er komið svo, að þeir yfirbjóða hvor annan í umhyggju sinni fyrir verkalýðnum. Mér skildist á hv. þm. Snæf., að hann teldi það ósvífni af hv. 5. þm. Reykv., að halda því fram, að hann bæri hagsmuni verkalýðsins fyrir brjósti, því að eini réttborni maðurinn til þess væri hv. þm. Snæf. sjálfur, og allt hans brölt á þinginu væri beinlínis gert til þess að vernda verkalýðinn fyrir þessum æsingamönnum, sem hann kallaði svo, sem alltaf væru að leiða verkalýðinn út í ógöngur. Annars er mér óskiljanlegt, hvernig þessir æsingamenn leiða verkalýðinn út í ógöngur. En mér finnst það nógu skemmtilegt, að sjá hv: þm. leika þetta hlutverk. Hann hefir æft sig töluvert upp á siðkastið og honum er að fara fram. Síðan hann fékk fyrir bekkjarnaut hv. 5. þm. Reykv., þá hefir hann lært vel af honum, og er meira að segja farinn að taka honum fram hvað orðalag og framsetningu snertir.

Hv. þm. spurði mig, hvernig á því stæði, að ég teldi ekki koma til mála að samþ. frv. það, sem hann ber fram, þar sem einn minna ágætu flokksmanna, Sigurjón Á. Ólafsson, formaður Sjómannafélagsins, hefði verið starfandi í n. þeirri, sem undirbjó till. þær, sem útbýtt hefði verið í þinginu. Því er auðsvarað. Það er vegna þess, að þessi frv. eru svo gerólík, að varla er hægt að segja, að nokkurt samræmi sé þar á milli. Ég mun fá tækifæri til þess síðar, að ræða við hv. þm. um þetta, þegar hitt frv. liggur fyrir. Ef hann athugar frestina, reglurnar um atkvgr., I. kaflann, um réttindi verklýðsfélaga, og athugar áhrif gengisbreytinga á kaupgreiðslusamninga, þá mun hann sannfærast um, að þarna er mikill munur á. Það þarf heldur ekki að fara í grafgötur að leita að því, því að væri ekki munur á, — hvers vegna væru þá hv. flm. að flýta sér að bera fram þetta frv., ef það væri að öllu leyti eins og það frv., sem n. hefir samið? Hvers vegna væru sjálfstæðismenn þá að flýta sér að koma með þetta frv.? Sannleikurinn er sá, að þarna ber mikið á milli, eins og hv. þm. veit og sagði líka í sinni fyrstu ræðu. En ég skal ekki eyða tíma til þess að ræða um þetta núna, því að það mun síðar koma fram.

Hv. þm. fylltist mikilli vandlætingu og taldi ósæmandi af mér sem ráðh. að tala um vinnustöðvun af hálfu togaraeigenda, því að hún væri af hendi sjómanna. Ég skal að vísu ekki fara að deila við hann um orðalag í þessu efni. En ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um þetta efni, að ef um verkfall er að ræða af hálfu sjómanna, — hvernig stendur þá á því, að togararnir fara ekki á ufsaveiðar? Hv. 5. þm. Reykv. spurði að þessu, en hv. þm. Snæf. gleymdi að svara því. Ég vil spyrja, hvort þar sé verkfall af hálfu sjómanna? Eru það sjómennirnir, sem hafa neitað að fara út á ufsaveiðar? Mér er kunnugt um, að svo er ekki. Þeir eru fúsir að fara út á ufsaveiðar með óbreyttum kjörum. Mér er kunnugt um, að ýmsir útgerðarmenn hafa viljað láta skip sín fara út á ufsaveiðar með óbreyttum kjörum. En það eru samtök útgerðarmanna, sem hafa samt stöðvað skipin og hindrað þau í að fara á veiðar. Þetta er vinnustöðvun af hendi útgerðarmanna. Þegar hv. þm. ber smjör á góma sína og talar áhyggjufullur vegna þjóðarinnar um tjón það, sem hljótist af þessari vinnustöðvun, þá ætti hann að muna, að það væri munur fyrir sjómenn og útgerðarmenn líka, ef þeim 12–15 skipum, sem höfðu hug á því að fara á ufsaveiðar, hefði ekki verið bannað það.

Hv. þm. fullyrðir — en hann var þó mýkri í máli nú en í fyrri ræðu sinni —, að ekki hefði þurft að koma til þessarar vinnustöðvunar, ef þetta frv. hefði verið orðið að l., áður en vinnustöðvunin hófst við togarana. Mér er það alveg óskiljanlegt, hvernig hv. þm. fer að tala þannig, sérstaklega að hann, sem er þessu máli þaulkunnugur, skuli fullyrða annað eins og þetta. Hann sagði, að sáttasemjara hefði þá gefizt tími til undirbúnings, og honum hefði borið skylda til að taka málið að sér. En sáttasemjara hefir gefizt nægilegur tími til þess að kynna sér málið, þar sem ég veit ekki betur en að 3 mánuðum fyrir áramót hafi samningum verið sagt upp af hálfu sjómanna. Allan þann tíma gat sáttasemjari gengið úr skugga um, hvort samningar tækjust, og ef þeir tækjust ekki, þá freistað að koma sáttum á. Það er því alveg um sömu aðstöðu að ræða og gert er ráð fyrir í frv. Þegar leið að áramótum, settu sjómenn fram sínar kröfur. Síðan hefir sáttasemjari þráfaldlega reynt með viðtölum við báða aðilja að koma sættum á, en hann hefir engin móttilboð fengið frá útgerðarmönnum. (ÓTh: Hefir hann beðið ráðh. að skila þessu? Þetta eru fullkomin brot á embættisskyldu hans og þar að auki ósannindi). Þetta er rangt. Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að blása sig upp eins og fýsibelg út af þessu. Hann veit, að hingað til hefir sáttasemjari engin gagntilboð fengið frá útgerðarmönnum. (ÓTh: Það er gott að heyra það á hæstv. ráðh., að hann fyrirverður sig fyrir að vera með þetta fleipur). Hv. þm. ætti ekki að vera með neitt fleipur sjálfur. Ég fer hér ekki með neitt fleipur.

Ég vil spyrja hv. flm. að því, hvernig honum geti dottið í hug, að með slíkri lagasetningu, sem hann ber hér fram, sé hægt að knýja annanhvorn aðilja til þess að koma með gagntilboð. Það eina, sem sáttasemjari getur, ef hann fær ekki gagntilboð, er að bera fram till. sjálfur og láta greiða atkv. um hana. Þann rétt hefir hann nú eftir gildandi reglum. Þetta veit hv. þm. mætavel, og það ætti að vera óþarfi að segja honum það. Það er hvorki eftir þessari lagasetningu eða eftir núgildandi reglum hægt að knýja annan aðilja gegn vilja hans til að koma með ákveðin tilboð. Það er aðeins hægt að knýja hann til að greiða atkv. um till., sem sáttasemjari ber sjálfur fram.