24.02.1938
Neðri deild: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

16. mál, vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er alltaf gaman að heyra hv. þm. Snæf. tala, sérstaklega vegna þess, hvað hann tekur sjálfan sig alvarlega. Enginn þm. talar með annari eins tilfinningu fyrir því, hve vigtug persóna hann sé. Það er gaman að heyra til hans, þegar hann er að reyna að gera grín að öðrum. — Þegar hann minnist á sinn skólatíma, þá er auðvitað margs að minnast frá þeim tímum. Honum fannst ég hafa staðið í stað, frá því ég var í 5. bekk menntaskólans. Þetta er a. m. k. ekki rétt að því leyti, að ég var ekki sósíalisti þá, en er það nú. Því miður get ég ekki sagt það sama um þennan skólabróður minn, því að þegar hann var í 5.bekk menntaskólans, þá var hann sósíalisti. En síðan hefir honum farið svo aftur, að nú er hann íhaldsmaður, og þykir mér það leitt. — Það væri margt, sem maður gæti rifjað upp, ef maður ætti að taka þá tíma. En ég ætla að snúa mér að því máli, sem er hér til umr.

Hann sagði, að það hefðu í raun og veru ekki verið sjómennirnir, sem hefðu sagt upp samningunum, heldur hefðu það verði pólitískir æsingamenn, sem hefðu fengið þá út í það. Nú er það upplýst, að það fór fram leynileg atkvgr. um þetta á togurunum. Og á Kveldúlfstogurunum fór þessi atkvgr. fram á meðan togararnir voru á síldveiðum. Ég er hræddur um, að einhverjir hafi átt þar sterkari trúnaðarmenn um borð en ég. Það er því aðeins til þess að gera lítið úr íslenzkum sjómönnum, ef það er meiningin hjá hv. þm. að telja mönnum trú um, að þeir hafi ekki sjálfir ákveðið að segja upp samningunum. En af hverju kemur hv. þm. ekki með einu orði inn á aðalfyrirspurn mína, sem var viðvíkjandi ufsaveiðunum? Hvers vegna fóru skipin ekki út á ufsaveiðar?

Þá er þessi hv. þm. að reyna að halda því fram, að ég skilji ekki neitt í þessu frv., þar sé ekki að ræða um skerðingu á verkfallsréttinum. Eins og ég tók fram áðan, þá liggur skerðingin sérstaklega í tvennu. Annarsvegar eru það frestirnir, sem eru afgerandi í sambandi við áhrif verkfalla, og hinsvegar það lýðræðisbrot, sem framkvæma á í sambandi við það að ákveða verkföll.

Hv. þm. talaði um, að hinar vinnandi stéttir væru ekki sjálfráðar. Ég vil spyrja hann að því, hverjir eigi að ráða fyrir verkalýðinn, þegar hann ber fram annað eins og er í 21. gr. frv., þar sem sáttasemjari getur fengið till. sínar samþ., þótt 62% greiddra atkv. séu á móti, ef 50% félagsmanna greiða atkv. Og ef 24% félagsmanna greiða atkv. um till., þá eru þær samþ., þótt hver einasti, sem greiðir atkv., sé á móti þeim. Er verkalýðurinn þarna sjálfráður, þegar sáttasemjara er gefið svo að segja sjálfdæmi? Nei, það er ekki til neins fyrir hv. þm. að halda því fram, að það séu örfáir æsingamenn, sem ráði yfir verkalýðnum. Það er verkalýðurinn sjálfur, sem ris upp gegn þessu, því að þar fær hann ekki að vera sjálfráður gerða sinna. Meiri hl. fær ekki að ráða. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að vera með neinar vífilengjur. því að þetta stendur í 21. gr.

Svo kom þessi hv. þm. eins og venjulega ofurlítið inn á Rússland. Hann sagði, að verkfallsvopnið væri tekið af verklýðnum þar. Veit ekki hv. þm., að verkalýðurinn er búinn að sigra í Rússlandi? Hann er búinn að steypa auðvaldinu af stóli þar og afnema auðvaldsskipulagið. Það er nú að byrja 17. árið síðan þetta gerðist. Verkalýðurinn er búinn að þurrka út auðvaldsskipulagið þar, og hann ræður þar sjálfur sínum málum. Það veit hver maður, sem kynnir sér skýrslur Þjóðabandalagsins, að það er búið að ferfalda launin þar, miðað við það, sem þau voru á keisaratímanum. Það er vitað, að Rússland er með fremstu löndum að því er snertir laun verkamanna. — Hv. þm. segir, að verkamennirnir vinni þar undir svipu. Ég get sagt hv. þm., að þegar sjómennirnir voru að vinna á Kveldúlfstogurunum í sumar og höfðu 3 aura premíu á mál, þegar málið var selt á 8 kr., svo að sjómennirnir á þeim togurum, sem bezt gekk, höfðu helmingi lélegri útkomu en sjómennirnir á mótorbátunum, sem vel gekk, þá sögðu sjómennirnir á Kveldúlfstogurunum, að þetta hefði verið eins og að moka skít fyrir ekki neitt. Þetta er lýsing þeirra á aðbúnaðinum, sem Kveldúlfur skapar þeim.

Hv. þm. talaði um lýðræðið og sagði, að kommúnistar ættu ekki að dirfast að taka sér það orð í munn. Ég ætla að spyrja hv. þm. og ásamt honum aðra þm. Sjálfstfl. um það, hvort meiri sönnun sé hægt að færa á það, að menn standi með lýðræðinu en þá, hvort menn vilja fórna lifi sínu fyrir það. Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvar Kommfl. Spánar og þm. hans standa í þeirri baráttu. sem þar er háð fyrir lýðræðið. Í Kommfl. á Spáni er 1/4 millj. manna, og helmingurinn af þeim er á vígstöðvunum. Þúsundir af spönskum kommúnistum eru fallnir í vörn sinni fyrir lýðræðið, móti Franco, Mussolini og Hitler. Ég vil spyrja þessa menn, sem alltaf eru að hræsna með lýðræðinu, hvort hægt sé að standa betur með því, þegar í odda skerst, heldur en að berjast fyrir því upp á líf og dauða. Það hefir komið í ljós, að í hverju landi, þar sem skorizt hefir í odda milli fasismans og lýðræðisins, þá eru það kommúnistarnir, sem barizt hafa ákafast fyrir lýðræðinu. Íhaldsflokkarnir, sem alltaf hafa verið að hræsna með lýðræðisheitinu, hafa aftur á móti tekið afstöðu með Franco og fasismanum. Það eru þessir herrar, sem ekki ættu að taka sér orðið lýðræði í munn. Þetta ætla ég að biðja hv. þm. að athuga, þegar hann er að reyna að svívirða Sovétríkin. En það er ekkert ríki, sem hefir tekið eins ákveðna afstöðu með lýðræðinu eins og Sovétríkin. Það myndi horfa öðruvísi við á Spáni, ef þau hefðu ekki hjálpað, eins og þau hafa þó gert.

Það er annars rétt að ég geri hlé á ræðu minni nú, því að ég lofaði forseta því, enda mun eiga að slíta fundi kl. 3. En ég áskil mér rétt að mega ljúka henni síðar. [Frh.].