28.02.1938
Neðri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

29. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Árið 1910 var 68% af landsfólkinu í sveitum, 1920 eru það talin 57%, en nú er það komið niður í rúm 40%, eða árið 1935, sem er síðasta árið, sem fullkomnar skýrslur eru til um og unnið hefir verið úr. Eru þarna með talin þorp, sem hafa minna en 300 íbúa.

Það virðist ekki horfa vel fyrir þjóðarafkomunni, ef svo heldur áfram sem nú er komið, að fólkið flýr sveitirnar, um 600 manns á hverjum 10 árum, eða 60 manns á ári, þegar líka er á það litið, hversu mikið atvinnuleysi nú er við sjávarsíðuna. Vegna sveita, bæja og kauptúna er því nauðsyn að vinna að því, að þessi stórkostlega blæðing sveitanna ekki aðeins stöðvist, heldur verði einnig hægt að veita þar viðtöku því fólki, sem þar vex upp, svo að það geti búið þar. Til þess að unnið verði að þessu, skilst mér, að sé aðallega um tvær leiðir að ræða. Önnur er sú, að vinna að verðhækkun afurða, sem framleiddar eru í sveitunum, en hin er sú, að lækka framleiðslukostnaðinn. Eftir báðum þessum leiðum verður að stefna að því sama marki, að gera fólkinu lífvænlegt í sveitum landsins.

Þegar litið er á, hvernig unnið verður að lækkun framleiðslukostnaðarins, þá verður einna fyrst fyrir augum kostnaðurinn við að afla heyjanna, því að þar er einn stærsti útgjaldaliður bóndans. Nú er það vitað, að heyöflun á óræktuðu landi borgar ekki að fullu vinnulaunin miðað við þann taxta, sem nú gildir í landinu. Og af búreikningum, sem unnið hefir verið úr frá síðari árum, hefir komið í ljós, að vinnukostnaðurinn við öflun útheys er nærri því 70% meiri en heyöflun á ræktuðu túni. Nú er á það að líta, hversu skammt enn er komið ræktun túna, jafnvel þeirra, sem fyrir eru, því að meira en helmingur þeirra túna, sem til eru um aldamót, eru ennþá óræktuð, — 30 þús. dagsláttur eru ennþá í sama karganum og um aldamót. Það er mikil spurning, hvort heyskapur á þeim túnum, sem ennþá standa óhreyfð. borgar einu sinni full vinnulaun. Mér er nær að halda, að bóndinn verði jafnvel þar á sínu túni að vinna fyrir undirmálskaup.

Eitt af því fyrsta, sem þarf að stefna að, er því, að öll tún í landinu verði slétt og fullræktuð.

Ef litið er á þá breyt., sem gerð var síðast á jarðræktarl., þá verður við það að kannast, að þar var stigið spor aftur á bak, því að þar var styrkurinn til túnasléttunar lækkaður. Þess vegna er það ein fyrsta breyt., sem gera á með þessu frv., að færa styrkinn á túnasléttur upp í það, sem hann var, áður en lagabreyt. kom til, en jafnframt er gerð brtt. á þann hátt, að styrkurinn verði því hærri sem sléttan er betur vönduð, og styrkurinn fari stighækkandi fyrir hvert ár vinnslunnar, því að það hefir komið í ljós við órækar tilraunir, sem gerðar hafa verið a. m. k. í ræktunarstöðinni á Akureyri, að það munaði geysimiklu, hvað gróðurmagnið var meira þar, sem vinnslan var látin fara fram á fleiri árum, en þar, sem unnið var aðeins á einu ári. En þar sem nærri því 3/4 hlutar allra túna landsins hafa ekki fengizt fullræktaðir, þá er lagt til, að bændur fái nokkurn styrk til að endurrækta tún, sem ekki hafa fengizt fullræktuð, svo að þeir, sem vilja endurslétta tún og vinna með 3 ára jarðvinnslu, fái styrk, sem nemur fullum ræktunarstyrk, til viðbótar þeim styrk, sem þeir hafa fyrir.

Nú er það vitað, að sumar sýslur landsins hafa mjög dregizt aftur úr í jarðabótum, einkum túnasléttun. Í sumum sveitum landsins er fjöldi jarða, þar sem varla hefir verið hreyfð þúfa enn. Þess vegna er í þessu frv. lagt til, að þeir bændur, sem skammt eru komnir í ræktun á jörðum sínum, fái 20% viðbótarstyrk upp í það hámark, að þeir eigi sáðsléttur í túnum, sem svarar 19 dagsláttum. Það mun mega ætla, eins og nú er ástatt í sveitum, að slík jörð sé meðaljörð, og er stefnt að því marki, að á næstu 10 árum verði hvert kot á landinu meðaljörð.

Annar stór kostnaðarliður við ræktunina eru áburðarkaupin. Það er vitað, að til þeirra fer um hálf millj. kr. út úr landinu árlega. Með þessu frv. er að því stefnt að styðja að meiri gjaldeyrissparnaði í þessu efni, með því að veita meiri styrk til varðveizlu þeirra áburðarefna, sem dýrmætust eru. Þegar þess er gætt, að sumslaðar er ekki til áburðargeymsla nema fyrir 1/10 hluta af áburðinum, þá má ljóst vera, hversu mikið rekur á eftir að hækka styrkinn einmitt til þessara hluta.

Eitt af því, sem ræktuninni er víða tilfinnanlegast áfátt um, er nægileg framræsla. Af því leiðir, að frjóefnin í jörðinni notast illa, fóðurgildið minna og jarðabæturnar endast verr. Því er lagt til, að styrkur til framræslu verði hækkaður um 511 aura í opnum skurðum og 30–80 aura í lokræsum hverjir 10 m. Þá er lagt til, að hækkaður verði styrkurinn til matjurtagarða og ennfremur, að girðingar verði flokkaðar líkt og áður, þannig að betur verði ýtt undir meiri vöndun girðinga heldur en gert er með því að miða aðeins við metrafjölda.

Þá er lagt til, að hækkaður verði styrkur bæði á þurrheys- og votheyshlöður, sérstaklega þó votheyshlöður, því að þar mun okkur vera einna mest áfátt. Í óþurrkasumrum fer afarmikið forgörðum bæði af vinnu og fóðurefnum, af því að bændur hafa enn ekki átt þess kost að koma upp þessum geymslum fyrir heyfeng sinn.

En af því að hér er um verulega hækkun að ræða, þá er lagt til, að árshámark á styrk til hvers býlis verði lækkað verulega, eða um 1/4. Er það gert til þess, að viðráðanlegra verði fyrir ríkið að ráða við þessar greiðslur.

Um önnur atriði þessa frv. skal ég ekki tala mjög langt mál, en skal þó aðeins drepa á, að hér er lagt til, að styrkur verði veittur til kerfisbundinna jarðvegsrannsókna og þær tilraunir fari fram undir umsjón tilraunaráðs Búnaðarfél. Íslands. Árlega er varið geysilega miklu fé til ræktunar í landinu. þegar talið er bæði framlag ríkisins og einstaklinga. Mun það nema mörgum millj. kr. Skiptir því mjög miklu máli, að rannsakað sé, hvernig verja megi þessari fjárhæð sem heppilegast og ræktunin sé unnin á sem hagnýtastan hátt. Þetta má telja grundvallaratriðið í ræktunarmálum landsins, og skal ég ekki fara um það fleiri orðum.

Þá er lagt til að nema úr gildandi jarðræktarl. þau ákvæði, sem skerða eignarrétt bænda á jörðum þeirra, hin svonefndu 17. gr. ákvæði, og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það, með því að það atriði var mjög rætt á síðasta þingi. Ég skal aðeins minna á, að mál þetta er ekki horfið enn úr hugum bænda úti um land, og er það m. a. ljóst af þeim áskorunum, sem liggja fyrir þessu þingi. Get ég þar minnt á 2 héraðsmálafundarsamþykktir, sem liggja hér fyrir, og það úr þeim kjördæmum, sem fólu jafnaðarmönnum umboð sitt við síðustu kosningar. Er því auðséð, að einnig í þeim héruðum er mikil andstaða gegn þessum ákvæðum.

Þá er lagt til, að gerðar séu verulegar breyt. á ákvæðunum um félagsræktun, vélasjóð og verkfærakaupasjóð og kaflanum um erfðaleigulönd, og skal ég ekki fara langt út það atriði. Ég skal aðeins minna á, að höfuðbreyt., sem lagt er til, að gerð verði á ákvæðunum um verkfærakaupasjóð, er um það, hvernig skuli skipta styrknum til verkfærakaupa milli búnaðarfélaganna. Hér er lagt til, að honum sé skipt að hálfu leyti eftir tölu lögbýla, en að hálfu leyti eftir félagatölu. Er það gert sérstaklega með tilliti til þess, að í kaupstöðum og kauptúnum er mikill fjöldi manna, sem eru félagar í búnaðarfélögum, þótt þeir séu þar ef til vill ekki starfandi félagar, en þar af leiðir, að kaupstaðirnir fá tiltölulega hærri styrk til verkfærakaupa en sveitirnar. En í kaupstöðunum eru búnaðarfélögin víðast búin að afla hinna stærri jarðræktavéla, en hinsvegar er þar ekki eins mikil þörf á hinum smærri verkfærum, því að þar kaupa menn vanalega þá vinnu hjá mönnum, sem ganga um og taka þau verk að sér. Er því augljóst, að hér er gerður jöfnuður á því misrétti, sem enn á sér stað, með því að miða við tölu lögbýla að hálfu leyti, en félagatölu að hálfu leyti.

Vera má, að ýmsum hv. þm. þyki hér vera gerðar till. um nokkuð miklar hækkanir á jarðabótastyrknum, en á það er að líta, að ef miðað er við þá hækkun, sem orðið hefir á dagkaupi vor og haust, er hækkunin ekki svo næsta mikil frá því, sem var, jafnvel þótt miðað sé við styrkinn eins og hann var fyrir aldamót. Einnig má á það líta, að ef miðað er við það, hvað mikill hundraðshluti af öllum ríkisútgjöldunum jarðabótastyrkurinn var um aldamót, þá kemur í ljós, að hækkunin er ekki svo mikil að hundraðstölu til síðan þá. En með því að hagur ríkissjóðs er nú svo sem vitanlegt er, þá skal ég taka fram, að ég mun flytja sparnaðartill. hér á þingi til móts við þær útgjaldahækkanir, sem þetta frv. hefir í för með sér.

Í sveitum landsins liggja fyrir mörg verkefni. Það þarf að rækta jörðina, byggja upp bæina, bæta fjárstofninn, fjölga býlunum. En grundvallarskilyrðið er aukin ræktun. Auðæfin eru í frjómoldinni, og þangað verður að sækja þau, ef menn eiga að geta haft gott af þeim, í stað þess að halda áfram að flytja frá mold til malar.

Þetta frv. hefir verið flutt hér áður, en ekki fundið náð fyrir augum valdaflokka þingsins. Er það nú flutt enn og í þeirri von, að það mæti nú meiri skilningi en það hefir átt að fagna að undanförnu.

Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.