28.02.1938
Neðri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

29. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Ég get út af fyrir sig sagt gott eitt um það, sem hv. þm. Mýr. sagði, að þessu máll verði vísað til búnaðarþings á sínum tíma. Þó sé ég ekki ástæðu til þess um þann kafla l., sem hann talaði um, — I. kafla því að hér er ekki lagt til að gera neinar breyt. á honum frá þeim samtölum, sem fóru fram um hann á sínum tíma milli búnaðarþingsins og stj. En um II. kafla skal ég aðeins geta þess, að breyt. þær, sem í II. kafla felast, voru ræddar á síðasta búnaðarþingi, og þar voru gerðar samþykktir, sem hnigu í sömu átt og þessar breyt., sem hér liggja fyrir, svo að segja má, að búnaðarþing hafi einmitt tekið afstöðu til II. kafla frv. Ég get, ef hv. þm. óskar, lagt fyrir hann þær brtt., sem samþ. voru á síðasta búnaðarþingi og voru útbúnar af jarðræktarnefnd, og mun hann þá geta sannfærzt um, að þessar breyt., sem hér eru fluttar, eru alveg í samræmi við þær brtt. Þar er mjög litlu haggað; ég ætla, að ákvæðin um styrkupphæðina, sem eru í 19. gr. frv., séu alveg þau sömu. enda unnu sömu menn að þeim brtt. á búnaðarþinginu og þeim brtt., sem hér eru fluttar, og það getur hv. þm. sannfærzt um með því að lesa tíðindin frá síðasta búnaðarþingi. Þess vegna tel ég ekki neina þörf að vísa málinu til búnaðarþings aftur, þar sem segja má, að höfuðbreyt. þær, sem frv. felur í sér, séu einmitt frá búnaðarþinginu runnar.