28.02.1938
Neðri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

30. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi, og er nú flutt aftur með smábreytingum. Sé ég því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það nú, þar sem öllum hv. þdm. hlýtur að vera fyllilega ljóst, að hverju það lýtur.

Frv. er fyrst og fremst ætlað að tryggja það, að jafnan séu til nægilegar birgðir í landinu af innlendu fóðurmjöli, og ennfremur að fóðurbirgðirnar séu fyrsta flokks vara. Þá á frv. ennfremur að tryggja það, að bændur eigi kost á að fá fóðurbæti þann, sem þeir þurfa að nota, með sem hagkvæmustu verði, og því er ætlazt til, að Búnaðarfélag Íslands hafi hönd í bagga um verðlagið. Jafnframt er og gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði verksmiðjunum að skaðlausu vaxtatap og annan útborgaðan kostnað af geymslu mjölsins. Ennfremur á þetta að vinnast með því, að notuð sé heimild sú, sem veitt er ríkisstj. til að greiða úr ríkissjóði flutningsgjald á mjölinu frá verksmiðjuhöfn til viðkomustaða skipa Eimskipafélagsins, strandferðaskipa ríkissjóðs og þeirra fjarða- og flóabáta, sem styrks njóta úr ríkissjóði til útgerðarinnar.

Hér er að sjálfsögðu um nokkurn kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð, ef heimild þessi verður notuð. Þó býst ég við, að það verði meira í orði en á borði, því að oft má flytja allmiklar fóðurbirgðir á hinar ýmsu hafnir kringum land án mikils kostnaðar. Á ég þar við, að strandferðaskip ríkissjóðs hafa oft lítið að flytja, og mætti því láta þau flytja fóðurbirgðir, þegar svo stæði á. Þá má og ennfremur ætla. að fá mætti þá flóabáta, sem styrks njóta af ríkissjóði, til þess að flytja fóðurbirgðirnar fyrir hagkvæm kjör.

Að leggja þá kvöð á síldarverksmiðjur ríkisins að selja fóðurmjölið til notkunar innanlands með kostnaðarverði, virðist ekki ósanngjarnt, þegar litið er á þá aðstöðu, sem verksmiðjunum er veitt af hinu opinbera, enda hefir ákvæði um það verið í lögum áður. Loks er í frv. þessu heimild fyrir ríkisstj. til ýmissa ráðstafana, ef fóðurbirgðir teppast inni á verksmiðjuhöfn vegna hafíss. Þetta verður að teljast mjög eðlilegt, því að öruggast er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann.

Ákvæði frv. um ívilnanir fyrir bændur eru að mestu þau sömu og verið hafa í lögum áður; hér er aðeins lagt til að gera þau vafningaminni og einfaldari.

Hvað snertir kostnað þann, sem af ráðstöfunum þessum kann að leiða, nægir að vísa til núgildandi lagaákvæða um fóðurtryggingarsjóði, þar sem gert er ráð fyrir 15 þús. kr. styrk úr ríkissjóði til þeirra, en eins og kunnugt er, hafa lög þessi aldrei verið notuð og verða sennilega aldrei notuð í því horfi, sem þau eru nú. Þykir því rétt að leggja til að nota þá upphæð, sem við það sparast að lögin um fóðurtryggingarsjóði eru ekki framkvæmd, til þeirra fóðurtrygginga, sem frv. gerir ráð fyrir. Þykir því ekki ástæða til sérstakrar fjáröflunar fyrir ríkissjóð, þó að frv. þetta verði að lögum.

umr. lokinni óska ég frv. vísað til 2. umr. og landbn.